Innlent

Rafræn ökuskírteini væntanleg í lok júní

Sylvía Hall skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Íslendingar munu geta haft ökuskírteini sín á rafrænu formi í símanum sínum í lok júní ef allt gengur upp. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra greinir frá þessu á Instagram.

„Það eru núna í gangi síðustu prófanirnar á stafrænu ökuskírteini og það verður aðgengilegt núna í lok júní inni á Ísland.is,“ sagði Áslaug og birti mynd frá prófunum í dag.

Þróun hefur staðið yfir undanfarna mánuði á vegum Ríkislögreglustjóra og Starfræns Íslands, sem er verkefnastofa á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Í frétt Stöðvar 2 í janúar var rætt við Íslendinga sem virtust almennt nokkuð ánægðir með að geta bráðum fengið ökuskírteinið í símann.

Áslaug fagnar því að hugmyndin sé nú að verða að veruleika, enda hafi þetta verið eitt þeirra mála sem hún vildi ná í gegn sem fyrst.

„Það er mjög gaman að sjá þetta verða að veruleika af því þetta var eitt af þeim málum sem ég hafði áhuga á að koma í gagnið strax og ég mætti í ráðuneytið,“ sagði Áslaug og sýndi hvernig ökuskírteinið mun líta út í síma. Þeir sem kjósa að eiga gamla góða skírteinið í veskinu munu þó áfram geta það. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×