Fótbolti

Eggert og Ísak einum sigri frá fyrsta titli

Sindri Sverrisson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson er kominn í bikarúrslit.
Eggert Gunnþór Jónsson er kominn í bikarúrslit. VÍSIR/GETTY

SönderjyskE, lið Eggerts Gunnþórs Jónssonar og Ísaks Óla Ólafssonar, er komið í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar í fótbolta í fyrsta sinn eftir 2-1 sigur á Horsens í dag.

Horsens komst yfir snemma í seinni hálfleik en SönderjyskE jafnaði á 63. mínútu. Eggert kom inn á sem varamaður þegar um tuttugu mínútur voru eftir og rétt fyrir leikslok skoraði Anders Jacobsen sigurmark SönderjyskE. Ísak var ekki í leikmannahópi liðsins í dag.

Eggert, sem fór aðeins 15 ára gamall út í atvinnumennsku þegar hann gekk í raðir Hearts í Skotlandi, og hinn 19 ára gamli Ísak eru því einum leik frá sínum fyrsta stóra titli. AaB og AGF mætast í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld, en Jón Dagur Þorsteinsson er leikmaður AGF.

Eggert hefur áður komist í úrslitaleik danska bikarsins en það var árið 2015 þegar lið hans Vestsjælland tapaði í framlengdum leik gegn FC Köbenhavn, 3-2. Björn Bergmann Sigurðarson og Rúrik Gíslason urðu þá bikarmeistarar með FCK og skoraði Björn eitt mark í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×