Erlent

Eyðing Amasonfrumskógarins jókst um þriðjung í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Ólöglegt skógarhögg á þátt í eyðingu Amasonfrumskógarins. Stefna Bolsonaro forseta er sögð hafa gefið því byr undir báða vængi.
Ólöglegt skógarhögg á þátt í eyðingu Amasonfrumskógarins. Stefna Bolsonaro forseta er sögð hafa gefið því byr undir báða vængi. Vísir/EPA

Um tíu þúsund ferkílómetrar Amasonfrumskógarins voru ruddir í Brasilíu í fyrra, um 34% meira en árið áður. Umhverfissamtök og vísindamenn segja að stefnu Jairs Bolsonaro, forseta Brasilíu, sé um að kenna en hann hafi gefið ólöglegu skógarhöggi, búgarðseigendum og bröskurum lausan tauminn.

Uppfærð gögn brasilísku geimstofnunarinnar INPE sýnir að skógareyðingin var enn meiri frá ágúst 2018 til júlí 2019 en upphaflega var talið. Það var fyrsta árið þar sem Bolsonaro var við völd.

Skógurinn sem var ruddur var á stærð við Líbanon, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Eyðingin er sú mesta í brasilíska hluta frumskógarins frá 2008. Um 60% skógarins er í Brasilíu. Vísindamenn segja að brýnt sér að vernda þennan stærsta regnskóg í heimi til þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga af völdum manna vegna þess hversu mikið kolefni skógurinn gleypir í sig.

Sjá einnig: Bolsonaro vænir  geimstofnun sína um lygar um eyðingu Amason

Bolsonaro hefur engu að síður talað fyrir aukinni nýtingu Amasonskógarins, jafnvel verndaðra svæða, til þess að létta á örbirgð í landinu. Hann rak forstjóra geimstofnunarinnar í fyrra eftir að hún birti gögn um eyðingu Amasonskógarins.

Vísbendingar eru um að enn hafi hert á eyðingu skógarins á þessu ári. Hún hafi jafnvel aukist um 55% frá janúar fram í apríl í samanburði við sama tímabil í fyrra. Bolsonaro kallaði út herinn til þess að berjast gegn skógareyðingunni í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×