Erlent

Stolið Bataclan-verk Bank­sy fannst á ítölskum bónda­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Hurðinni var stolið í janúar 2019.
Hurðinni var stolið í janúar 2019. Getty

Lögregla á Ítalíu hefur fundið hurð neyðarútgangs tónleikastaðarins Bataclan í París með verki Banksy á ítölskum bóndabæ. Hurðinni var stolið á síðasta ári.

La Repubblica segir lögreglu hafa fundið hurðina á bóndabæ í Abbruzzo, austur af Róm, og að lögregla muni greinar frekar á fundinum síðar í dag.

Verk breska götulistamannsins dularfulla var málað á hurðina en um er að ræða mynd af konu með sjal yfir höfðinu.

Níutíu tónleikagestir Bataclan voru drepnir í hryðjuverkaárásinni í frönsku höfuðborginni að kvöldi 15. nóvember 2015. Réðst þar hópur manna inn á staðinn þar sem sveitin Eagles of Death Metal tróð upp. Alls dóu 130 manns í árásunum í borginni umrætt kvöld.

Hurðin hvarf sporlaust í janúar á síðasta ári eftir að hópur grímuklæddra manna búinn slípirokkum losaði hurðina, kom henni fyrir í sendiferðabíl og ók á brott.

Stuttu eftir að hurðinni var stolið, eða í apríl 2019, var öðru Banksy-verki stolið í frönsku höfuðborginni en þá var skilti með málverki af grímuklæddri rottu stolið þar sem það var til sýnis fyrir utan menningarmiðstöðina Centre Pompidou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×