Fótbolti

Haland tryggði Dortmund sigur á ögurstundu | Samúel Kári fastur á bekknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Norska undrabarnið tryggði Dortmund sigurinn í dag.
Norska undrabarnið tryggði Dortmund sigurinn í dag. Vísir/Bleacher Report

Fimm af sex leikjum þýsku úrvalsdeildarinnar í dag er nú lokið. Norska undrabarnið Erling Braut Håland skoraði sigurmark Borussia Dortmund í uppbótartíma er liðið mætti Fortuna Düsseldorf á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Samúel Kári Friðjónsson sat sem fastast á varamannabekk Paderborn 07 er liðið steinlá 1-5 á heimavelli gegn Werder Bremen.

Það stefndi í markalaust jafntefli hjá Dortmund en norska undrabarnið skaut upp kollinum í blálokin og sá til þess að Dortmund heldur enn í vonina um að skáka Bayern á toppi deildarinnar.

Samúel Kári kom ekki við sögu hjá Paderborn er Werder Bremen valtaði yfir botnliðið. Paderborn átti aldrei möguleika í dag eins og lokatölur gefa til kynna. Samúel Kári og félagar eiga þó enn litla möguleika á að komast í umspilssæti um að halda sæti sínu í deildinni en þær líkur eru litlar sem engar. Liðið er með 20 stig og situr sem fastast á botni deildarinnar.

Sigurinn þýðir að Dortmund heldur smá pressu á toppliði Bayern Munich sem getur þó farið langleiðina með að tryggja sér titilinn með sigri á Borussia Mönchengladbach síðar í dag. Liðið er sem stendur með fjögur stiga forystu og gæti því náð sjö stiga forystu þegar níu stig eru eftir í pottinum en aðeins þrjár umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×