Sport

Tvö silfur og yfir tíu milljónir til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá efsta fólkið á Rogue Invitational mótinu um helgina.
Hér má sjá efsta fólkið á Rogue Invitational mótinu um helgina. Mynd/Rogue Invitational

Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson urðu bæði í öðru sæti á gríðarlega sterku CrossFit móti um helgina og unnu sér þar með bæði inn 5,4 milljónir íslenskra króna.

Rogue Invitational er eitt stærsta mót ársins í CrossFit íþróttinni en á það er hreinlega boðið besta CrossFit fólki heims. Árangur á öðrum mótum og þá aðallega heimsleikunum tryggir þeim bestu sæti á Rogue Invitational. Mótið var þó með breyttu sniði að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldarins.

Það var ekki hægt að halda mótið í Bandaríkjunum eins og í fyrra og því var ákveðið að breyta því í netmót. Keppnin fór engu að síður fram í beinni og var sýnt frá öllum keppendum frá þeirra eigin heimastöðvum. Sara og Björgvin Karl voru því að gera æfingar sínar hér heima á Íslandi.

Sara og Björgvin Karl stóðu sig frábærlega en réðu þó ekki við sigurvegarana, Tia-Clair Toomey frá Ástralíu og Patrick Vellner frá Kanada sem voru í nokkrum sérflokki og unnu bæði öruggan sigur.

Sara og Björgvin Karl komu sér endanlega upp í annað sætið með því að vinna bæði næstsíðustu greinina. Það gaf þeim hvoru um sig 40 þúsund Bandaríkjadali eða meira en 5,4 milljónir íslenskra króna.

Tia-Clair Toomey endaði með 630 stig eða 75 fleiri stig en Sara Sigmundsdóttir. Patrick Vellner var líka 75 stigum á undan Björgvini Karli.

Björgvin Karl Guðmundsson endaði með jafnmörg stig og Noah Olsen en Björgvin Karl endaði ofar þar sem hann vann fleiri greinar.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir kepptu líka á mótinu. Kartrín Tanja varð í 13. sæti en Þuríður Erla varð að sætta sig við 16. og næstsíðasta sætið.

Katrín Tanja fékk 300 stig en Þuríður Erla var með 275 stig, tíu stigum á undan Cheryl Nasso sem endaði í neðsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×