Upp­gjör: ÍR-Höttur 84-83 | ÍR-ingar björguðu sér á síðustu stundu

Kári Mímisson skrifar
Jacob Falko skoraði sigurkörfuna í leiknum í kvöld.
Jacob Falko skoraði sigurkörfuna í leiknum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

ÍR tók á móti Hetti í næst síðustu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta nú í kvöld. Fyrir leikinn var Höttur fallið en ÍR-ingar í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Svo fór að lokum að ÍR sigraði Hött með einu stigi eftir vægast sagt dramatískar lokamínútur. Með sigrinum fer ÍR ansi langt með að tryggja sig inn í úrslitakeppnina, eitthvað sem sennilega ekki margir bjuggust við í nóvember þegar liðið hafði ekki unnið leik eftir sex umferðir.

Leikurinn fór hægt af stað og það má segja að báðum liðum hafi gengið brösuglega sóknarlega til að byrja með. ÍR-ingar voru örlítið sterkari aðili leiksins en gestirnir úr Fljótsdalshéraði þó aldrei langt á eftir. ÍR byrjaði þó annan leikhluta af krafti og komst 10 stigum yfir í upphafi leikhlutans. Höttur vann sig þó af krafti inn í leikinn og tókst að minnka muninn niður í tvö stig þegar skammt var til hálfleiks. Í stað þess að jafna fyrir hlé voru það heimamenn sem áttu loka orð fyrri hálfleiks þegar Matej Kavas setti niður glæsilegan þrist og munurinn fimm stig þegar liðin héldu til búningsklefa. Staðan í hálfleik 39-34 fyrir ÍR.

Gestirnir skoruðu fyrstu stig seinni hálfleiksins en eftir það tóku heimamenn algjörlega yfir leikinn. Liðið náði stórkostlegum kafla og komst mest 16 stigum yfir í þriðja leikhluta og í raun virtist ekkert geta stöðvað Jacob Falko og félaga. Hattarmenn héldu sér þó áfram inni í leiknum og munur alltaf í kringum 10 stig þar til tvær mínútur voru eftir. 

Nemanja Knezevic tók þá til sinna ráða og á aðeins rúmri mínútu tókst honum að skora átta stig og náði einni blokkeringu og Höttur komið yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta. Jacob Falko tókst á einhvern ótrúlegan hátt að setja niður mjög erfitt skot og kom ÍR aftur yfir þegar rúmlega 10 sekúndur voru eftir. 

Höttur átti leikhlé inni en Viðar Örn, þjálfari liðsins, ákvað að taka það ekki. Gestirnir héldu í sína lokasókn þar sem Adam Heede-Andersen missti boltann áður en liðið náði að komast í skot og ÍR-ingar fögnuðu vel þessum dramatíska sigri. Lokatölur 84-83 fyrir ÍR sem fer langt með að tryggja sig inn í úrslitakeppnina með sigrinum.

Atvik leiksins

Eigum við ekki að setja þetta að þessa lokasókn Hattar. Viðar á leikhlé en ákveður að taka það ekki. Nú er ég ekki djúpur í þjálfarafræðunum en ég skil vel að hann hafi ekki tekið þetta leikhlé í ljósi þess hversu mikill vindur var í seglunum liðsins. Í ljósi þess að sóknin gekk ekki þá setur maður auðvitað spurningarmerki við þetta en á sama tíma ef hún hefði gengið væru fyrirsagnirnar aðrar.

Stjörnur og skúrkar

Jacob Falko var góður fyrir ÍR-inga eins og svo oft áður í vetur og ekki skemmir þessi lokakarfa sem honum tókst einhvern veginn að koma niður eftir mikið hnoð. Nemanja Knezevic var aftur á móti besti maður vallarins og í raun grátlegt fyrir hann að fá ekkert fyrir sitt framlag. Hann skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf þar að auki tvær stoðsendingar. Þá átti hann eins og áður segir átta stig á lokamínútum leiksins.

Því miður verður Adam Heede-Andersen að vera skúrkurinn í dag. Hann tapar boltanum á klaufalegan hátt í lokasókninni. Boltinn er ekki alltaf sanngjarn þar sem Adam hafði átt fínan leik en hann fer sennilega manna reiðastur á koddann í kvöld.

Dómarar leiksins

Virkilega góðir og ekki hægt að væla yfir neinu. Ég held að KKÍ eigi líka bara að vera harðir á að dómararnir dæmi alla leiki í þessum tígrisdýrabúningum, fer þeim afar vel. Svo verður að hrósa frammistöðu Kristins Óskarssyni sérstaklega en hann skartaði afar fallegri mottu í kvöld.

Stemning og umgjörð

Alltaf gaman að koma í Skógarselið þar sem Ghetto Hooligans bjóða okkur velkomin. Þeir sungu heldur betur og trölluðu enda fór þessi sigur ansi langt með það að tryggja farmiðann í úrslitakeppnina og ekki skemmir að hafa hann svona dramatískan.

Viðar Örn Hafsteinsson er þjálfari Hattarliðsins.vísir / anton brink

„Þetta hefði hæglega geta dottið okkar megin líka“

Viðar Örn, þjálfari Hattar var að vonum svekktur með tap liðsins í Skógarselinu nú í kvöld. Hann segir að hann sé mest svekktur með að hafa ekki tekið leikhlé fyrir lokasóknina.

„Ég er svekktur og í raun er það sem er efst í huga mínum núna bara af hverju tók ég ekki leikhlé fyrir lokasóknina. Á sama tíma þá sagði ég við mína menn að ég treysti þeim og að ég vildi ekki að ÍR myndi fá tíma til að tala sama og fara yfir eitthvað því við vorum að skora á þá á þessum tímapunkti. Eftir á að hyggja þá náum við ekki skoti og þá er það bara á mér að hafa ekki notað leikhléið til að setja upp þessa síðustu sókn.“

Lið Hattar þurfti að elta nánast allan leikinn en náði þessu frábæra áhlaupi undir lokinn og hefði hæglega getað stolið sigrinum hér í dag. Viðar segist vera ánægður með frammistöðu liðsins en hrósar á sama tíma ÍR-ingum sem hann segir að verði gaman að fylgjast með í úrslitakeppninni.

„Mínir menn gerðu vel. Við vorum að elta þá og þeirra fimm til tíu stiga forskot nánast allan leikinn. Leikurinn var í raun bara í jafnvægi og þegar varnarleikurinn small þarna í lokinn og Nemji (Nemanja Knezevic) setur þessa þrista niður þarna sem þeir þorðu að gefa honum þarna uppi á toppnum. Ég er mjög ánægður með frammistöðuna hjá mínum mönnum og þetta hefði hæglega geta dottið okkar megin líka. ÍR er að spila á gríðarlegu sjálfstrausti og eru að vinna þessa jöfnu leiki. Þeir fá framlög úr öllum áttum og svo er virkilega erfitt að koma hingað í Breiðholtið. Þeir taka með sér mikið sjálfstraust í úrslitakeppnina og það verður gaman að fylgjast með þeim þar.“

Það var ljóst fyrir þennan leik að Höttur væri fallið og að liðið myndi enda í 11. sæti deildarinnar. Spurður að því hvort það sé erfitt að hvetja mannskapinn í ljósi þess að liðið hafi ekki um neitt spila svarar Viðar eftirfarandi.

„Við erum allavegana ekki að spila verr heldur en þegar við vorum með allt á línunni. Stærsta áskorunin okkar núna er bara að mæta andlega sterkir í alla leikina sem eftir eru. Við erum fastir í 11. sæti og þegar okkur tekst að gera allt sem við leggjum upp með fyrir leik þá er það bara hrós á leikmennina að ná að gíra sig upp í þetta.“

ÍR KR. Bónus deild karla sumar, körfubolti KKÍ 2025.

„Ég er ánægður en á sama tíma er ég brjálaður“

Það mátti sjá ákveðinn létti í andliti Borce Ilievski, þjálfara ÍR eftir dramatískan sigur liðsins gegn Hetti nú í kvöld. ÍR-ingar voru yfir nánast allan leikinn þar til á lokamínútunni þegar Höttur komst yfir. Borce segist vissulega vera ánægður með sigurinn þó svo að hann sé vissulega ekki sáttur með það hvernig hann kom til.

„Þetta er sennilega einn af mikilvægustu sigrum á ferlinum mínum þar sem ég er bara alls ekki ánægður í leikslok. Það er óásættanlegt hvernig liðið mitt spilar þessa síðustu eina og hálfa mínútu með þetta sjö, átta stiga forystu og tapa því niður með heimskulegum ákvörðunum sóknarlega og töpuðum boltum. Við komum okkur á stuttum tíma í stöðu þar sem við erum ansi nálægt því að tapa leiknum. Í ljósi þessa er tilfinningarnar frekar blendnar, ég er ánægður en á sama tíma er ég brjálaður. Þetta var samt mjög mikilvægur sigur fyrir okkur til að komast í úrslitakeppnina. Núna tökum við nokkra daga í pásu, reynum að læra af þessu og vonandi komum við sterkir til baka gegn Haukum í síðustu umferðinni.“

Ertu með einhverja skýringu á því hvað gerist hjá liðinu þegar innan við tvær mínútur eru eftir af leiknum?

„Það kemur einhver hræðsla yfir okkur á þessum lokamínútum og við náum ekki að halda rónni. Við þjálfararnir erum alltaf að hugsa um andlega þáttinn í þessu líka en það sem var svona extra slæmt við þennan kafla í dag er hvað þetta gerist fljótt og í raun átti enginn af okkur von á þessu. En eins og ég segi þá hafðist þetta með smá heppni hér undir lokin.“

Spurður út hinar 38 mínúturnar segir Borce að þær hafi verið stórgóðar en óskar þess þó ekki að vinna fleiri leiki á þennan hátt. Liðið þurfi að skoða þennan leik betur og læra af honum og reyna að forðast að breyta þægilegum leik í spennutrylli.

„Við stjórnuðum leiknum hinar 38 mínúturnar, náum ágætri forystu sem okkur tekst að halda í kringum tíu stig. Reynd lið þurfa að kunna að klára leikina á sem bestan en ekki á þann hátt að áhorfendur fái hjartaáfall. Við þurfum að vera klárari í framtíðinni, horfa aftur á þennan leik, greina hann og læra af þessu.“

Staðan hjá ÍR var vissulega ekki góð þegar Borce tók við liðinu í lok nóvember. Liðið hafði aðeins unnið einn leik og ekki neitt sem benti til þess að liðið yrði í baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Borce segist vera stoltur af liðinu og þeim stíganda sem það hefur sýnt gegn liðum sem geta sett meiri peninga í leikmenn heldur en ÍR.

„Ég sagði við leikmennina fyrir leik að hugsa aðeins út í það hvar við erum núna miða við hvar við vorum fyrir þremur til fjórum mánuðum síðan. Okkur hefur tekist að komast úr fallsæti og erum núna í baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Ég er ánægður að við séum í þessari baráttu og að við höfum átt alla þessa frábæru leiki gegn liðum sem hafa miklu meira fjármagn heldur en við. Ég er mjög stoltur þjálfari en við þurfum að einbeita okkur áfram. Það er enn ein umferð eftir og svo úrslitakeppninni sem er bara nýtt mót þar sem allt getur gerst.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira