Innlent

Telur Jón Þór vera formanninn sem „þessi meirihluti þarf á að halda“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Þór Ólafsson er þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson er þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Píratar hafa tilkynnt skrifstofu Alþingis að Jón Þór Ólafsson, þingmaður flokksins, muni taka við af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, samflokkskonu hans, sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hún segir Jón Þór vera formanninn meirihlutinn þurfi á að halda nú.

Þórhildur Sunna tilkynnti á Alþingi í dag að hún hafi sagt af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sakaði hún meirihluta nefndarinnar um að standa í vegi fyrir athugun á hæfi Kristjáns Þórs vegna Samherja og gagnrýndi forsætisráðherra fyrir að telja þá niðurstöðu að frumkvæðisathugun hafi verið sett á ís vera góða.

„Verkfærin sem þeir nota til þess að réttlæta þennan gjörning er að draga sífellt mína persónu ofan í svaðið og nota það sem skjöld til þess að réttlæta þessar aðferðir sínar og því ætla ég ekki að taka þátt í lengur,“ sagði Þórhildur Sunna í samtali við Berghildi Erlu Bernharðsdóttur fréttamann í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2.

Aðspurð að því hver myndi taka við formennsku hennar í nefndinni nefndi hún Jón Þór á nafn.

„Við erum búin að tilkynna þingfundarskrifstofu að hann taki við í minn stað. Ég held að hann sé akkúrat formaður sem að þessi meirihluti þarf á að halda, akkúrat núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×