Íslenski boltinn

Bara ef Rúnar Páll fengi Fylki í hverri umferð: 33 stig af 33 mögulegum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson að stýra Stjörnuliðinu.
Rúnar Páll Sigmundsson að stýra Stjörnuliðinu. Vísir/Bára

Hann stóð tæpt sigur Stjörnumanna á Fylki í gærkvöldi en hann hélt í við hefðina. Stjarnan hefur nú unnið ellefu leiki í röð á móti Fylki í efstu deild.

Hinn sextán ára gamli Ísak Andri Sigurgeirsson tryggði Stjörnunni öll stigin með marki í uppbótatíma eftir að hafa komið inn á sem varamaður átta mínútum fyrr.

Rúnar Páll Sigmundsson tók við Stjörnuliðinu fyrir sumarið 2014 en Fylkismenn höfðu unnið Stjörnuna í seinni leik liðanna sumarið á undan.

Ólafur Karl Finsen tryggði Stjörnunni 1-0 sigur í fyrsta deildarleiknum á móti Fylki undir stjórn Rúnars Páls og Stjarnan vann síðan seinni leikinn 3-1.

Stjarnan hefur síðan unnið alla leiki sína við Fylki í Pepsi og Pepsi Max deildunum og markatalan er 27-5 Stjörnuliðinu í vil.

Í fyrra vann Stjarnan leikina tvo við Árbæjarliðið með samanlagt markatölunni 9-2.

Fylkismenn hafa reyndar unnið Stjörnuna í keppnisleik síðan að Rúnar Páll tók við. Fylkir vann 3-0 sigur á Stjörnunni í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar sumarið 2015. Í deildinni hafa aftur á móti öll stig í boði endaði í Garðabænum.

Rúnar Páll hefur nú náð í 33 stig af 33 mögulegum á móti Fylki sem þjálfari Stjörnunnar.

Ellefu deildarsigrar Stjörnunnar í röð á móti Fylki:

  • 2020 í Garðabæ: Stjarnan vann 2-1
  • 2019 í Árbæ: Stjarnan vann 4-1
  • 2019 í Garðabæ: Stjarnan vann 5-1
  • 2018 í Árbæ: Stjarnan vann 2-0
  • 2018 í Garðabæ: Stjarnan vann 3-0
  • 2016 í Árbæ: Stjarnan vann 2-1
  • 2016 í Garðabæ: Stjarnan vann 2-0
  • 2015 í Garðabæ: Stjarnan vann 1-0
  • 2015 í Árbæ: Stjarnan vann 2-0
  • 2014 í Árbæ: Stjarnan vann 3-1
  • 2014 í Garðabæ: Stjarnan vann 1-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×