Sport

Eitt af fáum mara­þonum sem fara fram í Evrópu: „Þykir lík­legt að það verði upp­selt í mörg hlaup“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr Reykjavíkurmaraþoninu á síðasta ári.
Úr Reykjavíkurmaraþoninu á síðasta ári. vísir/s2s

Silja Úlfarsdóttir, ein af forráðamönnum Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, segir að það hafi þurft að gera margar breytingar á maraþoninu í ár vegna kórónuveirufaraldursins og fjöldatakmarkanna.

Maraþonið fer fram í 37. sinn þann 22. ágúst en í stað þess að bæði rás- og markssvæðið verði við Lækjargötu þá verður rásmarkið við Sóleyjargötu.

„Vegna tilmæla almannavarna höfum við þurft að gera ýmsar ráðstafanir og til að mynda þá höfum við flutt rásið í Sóleyjargötu. Svo við byrjum þar og sköpum rými milli endamarksins og rásmarksins. Við þurfum einnig að starta fólki í fleiri hollum. Til að mynda þá byrjum við með þrjú holl í tíu kílómetrunum. Okkur þykir mjög líklegt að það verði uppselt í mörg hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu,“ sagði Silja í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir að mikill áhugi sé á hlaupinu, bæði hérlendis sem og erlendis frá, en margir erlendir hlauparar hafa skráð sig enda ekki mörg maraþon í Evrópu í sumar.

„Ég held að þetta sé eitt af fáum maraþonum sem fara fram í Evrópu. Það rignir yfir okkur fyrirspurnum og skráningu frá útlöndum. Það er rosa mikill áhugi og það er búinn að vera rosa mikill áhugi á hlaupasumrinu 2020. það sést vel á íþróttafatnaði og skóm. Þetta er allt að verða uppselt hjá umboðsaðilunum.“

Klippa: Sportpakkinn: Reykjavíkurmaraþonið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×