Innlent

„Tónn“ hjúkrunar­­fræðinga varðandi launa­hækkun sjúkra­liða kom Bjarna á ó­­vart

Sylvía Hall skrifar
Fyrirspurnatími á Alþingi á Covid-19 tímum
Fyrirspurnatími á Alþingi á Covid-19 tímum

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingar, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tókust á í óundirbúnum fyrirspurnatíma nú í morgun varðandi kjaradeilur hjúkrunarfræðinga. Bjarni segir það alvarlegt ef verkfall verður að veruleika nú í lok mánaðar en það sé ekki skynsamlegur málflutningur að gefa í skyn að fallast eigi á allar kröfur hjúkrunarfræðinga.

Logi gagnrýndi umræðuna í kringum kjaradeilurnar og sagði það skjóta skökku við að öll umræða sneri að skimun á landamærunum en ekki áhrif verkfallsins á hjúkrunarheimili, heilsugæslur og göngudeildir. Eftir veirufaraldurinn ætti mikilvægi þessara stétta að vera ljóst.

Bjarni sagði samkomulag hafa náðst um mikilvægustu þættina í samningum hjúkrunarfræðinga við ríkið en launaliðurinn væri stærsta áskorunin. Það stæði í vegi fyrir því að samningar náðust.

„Ég verð bara að spyrja: Hvaða málflutning er háttvirtur þingmaður með varðandi kjarasamninga almennt? Er það skoðun háttvirts þingmanns að það eigi bara alltaf að fallast á allar kröfur? Að það eigi bara, að þegar ekki nást samningar, að bæta í af ríkisins hálfu?“ spurði Bjarni og velti fyrir sér hvort Logi skildi heildarsamhengi kjarasamninga hins opinbera.

Hann tók þó undir þó orð Loga að það væri mjög alvarlegt mál ef til verkfalls kæmi. Hjúkrunarfræðingar væru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu en nú þegar hefði ríkið náð að semja við sjúkraliða, sem væri einnig fjölmenn og mikilvæg kvennastétt innan heilbrigðiskerfisins.

Logi setti spurningamerki við það að öll umræða um fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga snerist um röskun á skimun við landamærin.Vísir/Vilhelm

„Samningar tókust þar um að hækka launin, gera betur, laga vinnuumhverfið en okkur hefur ekki tekist að gera það í tilfelli hjúkrunarfræðinga,“ sagði Bjarni en bætti við að afstaða hjúkrunarfræðinga til þeirra samninga kæmu honum þó á óvart.

„Ég verð að segja eitt í því sambandi; það hefur komið nokkuð á óvart vegna þess að við einmitt náðum samningum við sjúkraliða, að heyra af þeim tóni hjá hjúkrunarfræðingum að sjúkraliðarnir hafi með því hækkað aðeins of mikið og að bilið sé orðið of lítið. Það kemur mér á óvart vegna þess að ég hélt við hefðum samstöðu um það að lyfta mest undir með þeim sem hefðu minnst.“

Sagði málflutning Loga óboðlegan 

Logi spurði Bjarna þá hvort kæmi til greina að setja lög á hjúkrunarfræðinga til þess að afstýra verkfalli. Bjarni tók þá aftur til máls og sagði umræðu um kjör opinberra stétta vera dapurlega, menn væru að ná pólitísku höggi á stjórnvöld „með því að taka alltaf upp einhliða málstað þess sem er að semja við ríkið.“

Hann sagði málflutninginn jafnframt vera óábyrgan.

„[Málflutningur] sem hefur í rauninni ekkert annað fram að færa í þessari umræðu en það eigi að fallast á allar kröfur hjúkrunarfræðinga til þess að samningar geti tekist. Svo megi það bara verða sem verða vill um forsendur allra annarra samninga og áhrifin út á við,“ sagði Bjarni.

„Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur, á engan hátt. Það eru engar aðstæður hér í þingsal til þess að fara að tala um alla þá sem fjölbreyttu þætti undirliggjandi í kjarasamningagerð sem hér skipta máli. Launin skipta máli háttvirtur þingmaður.“


Tengdar fréttir

Segir of langt á milli hjúkrunarfræðinga og ríkisins

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir ríkisins annars vegar, og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, FÍH, hins vegar, á sinn fund klukkan 14:30 í dag. Formaður FÍH segir stöðuna sem er uppi í kjaradeilum hjúkrunarfræðinga og ríkisins grafalvarlega.

Lýsa áhyggjum af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarráð Landspítalans lýsir yfir áhyggjum af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga í ályktun sem það hefur sent samninganefnd ríkisins og tveimur ráðuneytum. Varar það við því að þjónusta eigi eftir að skerðast verulega ef til verkfalls kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×