Erlent

Sakar Kínverja um að nota frumstæð barefli í landamæradeilu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bareflin sem Indverjar segia að Kínverjar hafi beitt.
Bareflin sem Indverjar segia að Kínverjar hafi beitt.

Háttsettur embættismaður í indverska hernum hefur sakað Kínverja um að hafa notað frumstæð barefli í átökum á landamærum ríkjanna. Hann laumaði mynd af bareflunum sem hann segir kínverska hermenn hafa notað til BBC.

Minnst tuttugu indverskir hermenn féllu í átökum við kínverska hermenn á landamærum ríkjanna í Himalaya-fjöllum í gær og fyrradag. Bæði ríki saka hvort annað um að eiga sök á átökunum og Kínverjar viðurkenna ekki að indverskir hermenn hafi látið lífið.

Í frétt BBC er birt mynd af vopnunum sem Indverjar segja að Kínverjar hafi beitt en eins og sjá má eru þau nokkuð frumstæð, búið er að binda nagla á járnstengur og útbúa þannig barefli.

Ríkin tvö hafa lengi eldað saman grátt silfur á landamærunum en þau háðu stríð árið 1962 þar sem Kínverjar höfðu betur. Í frétt BBC segir að líklega megi rekja notkun bareflanna til samkomulags á milli ríkjanna frá árinu 1996 þar sem samþykkt var að skotvopn og sprengiefni væru ekki leyfileg við þau landamæri sem ríkin deila um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×