Innlent

Séra Friðrik snýr sér við í gröf sinni

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Jör er einn fjölmargra stuðningsmanna Vals sem lýsir yfir hinni mestu skömm á ályktun stjórnar Knattspyrnufélagsins Vals. Varaformaður stjórnar var Þorgrímur Þráinsson rithöfundur þá er hin umdeilda ályktun var skrifuð.
Guðmundur Jör er einn fjölmargra stuðningsmanna Vals sem lýsir yfir hinni mestu skömm á ályktun stjórnar Knattspyrnufélagsins Vals. Varaformaður stjórnar var Þorgrímur Þráinsson rithöfundur þá er hin umdeilda ályktun var skrifuð.

„Man ekki til þess að hafa áður skammast mín fyrir að vera Valsari en ég geri það í dag. Stjórn Vals hefur hér sannarlega látið kappið bera fegurðina ofurliði,“ segir Guðmundur Jörundsson fatahönnuður og stuðningsmaður Vals. Hann íhugar nú stöðu sína.

Guðmundur skrifar þetta inn á sérstaka stuðningsmannasíðu Vals á Facebook – Fjósið – og lætur fylgja nýlega ályktun stjórnar Knattspyrnufélags Vals.

Umdeild ályktun stjórnar knattspyrnufélagsins

Í Fjósinu logar allt vegna yfirlýsingarinnar sem snýr að þeim fyrirætlunum borgaryfirvalda um að reisa smáhýsi í Hlíðahverfi, fyrir neðan Eskihlíð. Smáhýsi eru ætluð einstaklingum sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og vímuefnaneyslu eða annarra veikinda.

Fréttastofan fjallaði ítarlega um málið í gær eins og hér má sjá en þar var meðal annars greint frá sérstakri yfirlýsingu sem aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Vals sendi frá sér þar sem lýst er yfir áhyggjum af þessum fyrirætlunum. Stjórnin telur „afar óheppilegt að ofangreind búsetuúrræði í svo mikilli nálægð við Hlíðarenda þar sem öflug íþróttastarfsemi fer fram.

„Rúmlega 1.000 ungmenni æfa með Val og meirihluti þeirra býr í þeim hverfum þar sem smáhýsum verður komið fyrir. Er skjólstæðingum velferðarsviðs enginn greiði gerður með því að hýsa þá á þessu svæði auk þess sem það gæti vakið óöryggi og ótta meðal ungra íþróttaiðkenda sem búa í hverfinu og eiga þar leið um,“ segir meðal annars í ályktuninni. En stjórnin telur að það sé hagur þeirra að búa á öruggara svæði þar sem síður reyni á samskipti þeirra við börn og ungmenni sem eiga þar leið um.

Valsfjósið logar

„Er það í alvöru vilji Valsara að koma í veg fyrir að fólk sem minna mega sín fái aðstoð og skammtíma heimili nálægt Hlíðarenda? Þetta finnst mér skammarleg afstaða íþróttafélags sem ég hef alltaf staðið i þeirri trú að bjóði alla velkomna,“ segir Gísli Ólafsson sem vekur máls á yfirlýsingu stjórnar.

Þeir sem taka til máls eru ýmist sammála Gísla og svo Guðmundi eða stjórninni. „Þetta er nú ekki í anda Vals,“ segir Örvar Smárason og Vala Smáradóttir segir: „Lélegt Valur, lágkúrulegt! Þetta er ekki skrifað í mínu nafni sem Valsari!“ 

Valsfjósið, þar sem stuðningsmenn Vals koma saman til að skiptast á skoðunum, logar. Þar skiptast menn á skoðunum um ályktun stjórnar knattspyrnufélagsins en hún leggst gegn fyrirætlunum borgaryfirvalda um að koma upp smáhýsabyggð í grennd við Hlíðarenda.visir/bára

Smári Þórarinsson segir: „Ekki í mínu nafni. Mannúðin skal alltaf ráða för. Friðrik hefði haldið utan um lítilmagnan.“ Hér er vísað til séra Friðriks Friðrikssonar sem kom að stofnun Vals árið 1911 en hann hefur stöðu einskonar verndardýrlings félagsins.

Ýmsir eru þó sammála stjórninni og benda á að þetta sé leið barnanna í Valsheimilið og skiptast menn mjög í tvö horn. Hefur myndast langur umræðuhali þar sem tekist er á um þetta mál.

Valsmenn ekki svo léttir í lund

Sverrir Diego er einn þeirra sem vill gjalda varhug við smáhýsabyggðinni: „Ég geng þarna framhjá daglega og oft er mikið rusl þarna í kring. Á þriðjudagskvöld var lögreglan að pikka upp einstakling sem hafði látið lífið út af ofneyslu þarna og þykir mér slík aðkoma sorgleg en um leið ekki barnvæn,“ segir Sverrir meðal annars.

Gunnar Gunnarsson segir þetta ekki gott: 

„Séra Friðrik er ekki ánægður með þetta. Valur er félag mannúðar og virðingar.

Hlúum að þessu ógæfufólki. Við fæðumst ekki fullkominn. Margir misstíga sig í lífinu. Þetta eru samt okkar bræður og systur. Tökum vel á móti þeim og hjálpum þeim að byggja sig upp. Mannelska og virðing gerir kraftaverk. Ekki nóg að vera „Valsmenn léttir í lund“ á hátíðarstundum. Sýnum úr hverju við erum gerðir.“

Uppfært 13:18

Í fyrri útgáfu var mynd af E. Berki Edvardssyni formanni knattspyrnudeildar Vals en sú deild innan Knattspyrnufélagsins kom í engu að umræddri ályktun heldur var það aðalstjórnin sem stóð að henni. Lesendur og Börkur eru beðnir velvirðingar á þessum misgáningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×