Breski leikarinn Sir Ian Holm, sem er einna þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk Hobbitans Bilbo Baggins í Lord of the Rings-kvikmyndunum, er látinn, 88 ára að aldri.
Holm gerði sömuleiðis garðinn frægan sem þjálfarinn í Óskarsverðlaunamyndinni Chariots of Fire og svo Ash í Alien frá 1979.

Umboðsmaður Holm staðfesti andlát Holm í yfirlýsingu í dag. Segir að Holm hafi látist á sjúkrahúsi í faðmi fjölskyldu sinnar, en leikarinn hafði glímt við Parkinson-veiki um nokkurt skeið.
Leikarinn var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti karlleikari í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Charios of Fire.
Holm var aðlaður árið 1998 fyrir framlag sitt til leiklistar.