Erlent

Kína sakar Ind­land um að egna til á­taka viljandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lijian Zhao, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína.
Lijian Zhao, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína. Getty/Roman Baldandin

Kína hefur sakað Indverska herinn um að hafa egnt viljandi til átaka á landamærum ríkjanna á mánudag þegar minnst tuttugu indverskir hermenn létust. Þetta er fyrsta opinbera yfirlýsing kínverskra stjórnvalda eftir að til átaka kom á landamærum ríkjanna í Kasmír héraði.

Lijian Zhao, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, segir að indverskar hersveitir hafi farið yfir landamærin inn á kínverskt yfirráðasvæði og lagt til atlögu sem hafi verið upptök átakanna. Hann greindi þó ekki frá því hvort hersveitir Kína hafi orðið fyrir manntjóni.

Á föstudag greindi forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, frá því að kínverskir hermenn hafi farið yfir á yfirráðasvæði Indlands en að ekkert indverskt svæði hafi verið hertekið. Þá hét hann því að Indland myndi vernda landamæri sín með valdi ef til þess kæmi.

Zhao fjallaði um það í nokkrum tístum að Galwan dalurinn, þar sem átökin brutust út, væri Kína megin á landamærunum. Landamærin eru illa aðgreind milli ríkjanna og hafa verið nokkrar deilur um hvar landamærin liggja. Þá sagði hann að átökin hafi brotist út eftir að spenna milli ríkjanna hafi minnkað í kjölfar þess að Indverski herinn braut niður byggingar sem byggðar hafi verið á yfirráðasvæði Kína í maí.

„Hersveitir Indlands réðust á kínverska hermenn sem fóru á staðinn til að hefja viðræður og brutust í kjölfarið út mikil átök sem enduðu í mannfalli,“ skrifaði Zhao á Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×