Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Eva Karen Björnsdóttir, báðar úr GR, leika til úrslita um Íslandsmeistaratitil kvenna í holukeppni í golfi. Hákon Örn Magnússon og Axel Bóasson mætast í úrslitum karla.
Ólafía hefur leikið af miklu öryggi á mótinu á Jaðarsvelli á Akureyri og ekki varð breyting á í morgun þegar hún sló út Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur með 5/3 sigri.
Ólafía hefur unnið Íslandsmótið í holukeppni tvisvar, árin 2011 og 2013, en þarf að vinna Evu Karen í dag til að ná í þriðja titilinn. Eva Karen vann öruggan sigur á Ragnhildi Kristinsdóttur, sigurvegara mótsins frá því fyrir tveimur árum, 4/3.

Hákon Örn, sem keppir fyrir GR, vann Guðmund Ágúst Kristjánsson í æsispennandi leik þar sem úrslitin réðust á 18. holu en Hákon hafði einnar holu forskot fyrir hana og varði það.
Hakon fyrir sigri https://t.co/dNgjJOp6Hh
— Golfsamband Íslands (@Golfsamband) June 21, 2020
GK-ingurinn Axel, sem vann mótið árið 2015, hafði betur gegn Ólafi Birni Loftssyni í undanúrslitunum, 2/1.
Úrslitaleikirnir hefjast núna rétt eftir hádegi og einnig verður leikið um 3. sæti.