Viðskipti innlent

Segir erlenda fjárfesta sýna Icelandair áhuga

Samúel Karl Ólason skrifar
Bogi Níls Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Níls Bogason, forstjóri Icelandair. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Erlendir fjárfestar hafa sýnt áhuga á hlutafjárútboði flugfélagsins, þó forsvarsmenn þess hafi ekki haft frumkvæði af slíkum samtölum. Þetta segir Bogi Níls Bogason, forstjóri Icelandair. Í samtali við Morgunblaðið segir Bogi að vinna félagsins miði að því að laða innlenda fjárfesta að með útboðinu.

„Við höfum verið með einbeitinguna hér innanlands og höfum ekki haft frumkvæði að því að tala við fjárfesta erlendis frá. Þátttaka erlendra aðila kemur þó alveg til greina,“ segir Bogi við Morgunblaðið.

Áður en af hlutafjárútboðinu verður þarf lausn að finnast á kjaradeilu Icelandair og flugfreyja félagsins. Einnig þarf að ljúka gerð samninga við aðra hagaðila. Þær viðræður segir Bogi að gangi vel. Þær séu þó flóknar og ræða þurfi við marga aðila.

Bogi segir einnig að enginn viti hvenær flugumferð taki við sér á nýjan leik og forsvarsmenn Icelandair búi sig undir að það gæti tekið langan tíma.

„Allir okkar innviðir eru tilbúnir og við erum því klár að stökkva af stað á hverjum tíma. Það er mjög jákvætt að létt var á takmörkunum til og frá Íslandi um miðjan júní og jukum við strax við framboðið. Þannig munum við vinna áfram og getum bætt í þegar aðstæður bjóða upp á,“ segir Bogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×