Hátíðin fer nú fram í tólfta sinn og í fyrsta sinn er hún haldin í júnímánuði - en henni var frestað vegna faraldurs kórónuveirunnar.
„Þetta er tækifæri fyrir hönnuði til að koma og kynna sín verk og okkur finnst mjög vel við hæfi í þessu ástandi sem búið er að vera í samfélaginu að sýna þessa bjartsýni, framtíðina, þetta hugvit sem á að koma okkur út úr þessu ástandi sem við erum í núna. Þannig þetta er heppilegur tími til þess að halda HönnunarMars,“ sagði Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri HönnunarMars.
Á dagskrá eru áttatíu sýningar og hundrað viðburðir um allt höfuðborgarsvæðið.
„Ef fólk er að velta fyrir sér hvað það á að gera í dag þá mæli ég með að byrja í ráðhúsinu þar sem sýningin Næsta stopp, sýning um borgarlínuna, fer fram. Hafnartorgið er ákveðin miðja hjá okkur í ár. Hægt er að tækla ansi mikið með því að labba í gegnum Hafnartorgið,“ sagði Álfrún.
Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar.
„Ég hvet alla til að kíkja á HönnunarMars og skoða dagskránna. Það finna allir eitthvað við sitt hæfi. Fjölskyldur ættu að nýta daginn. Fara að kjósa á laugardaginn og kíkja svo á HönnunarMars. Við hvetjum alla til að koma og finna þessa bjartsýni og jákvæðni sem á sér nú stað,“ sagði Álfrún.