Ísland hefur lokið aðgerðum sínum sem farið var í vegna flokkunar Íslands á gráa lista FATF yfir ríki sem hafa ónægar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Grái listinn nær yfir ríki sem eru af hinu opinbera sögð „samvinnufús og aðgerðaáætlun um endurbætur eru í farvegi.“
Ísland rataði á gráa lista FATF í október á síðasta ári.
Í dag fór fram allsherjarfundur FATF (Financial Action Task Force) og var staðfest niðurstaða sérfræðingahóps um að Ísland hefði lokið aðgerðum sínum með fullnægjandi hætti.
Þá var ákveðið samhljóða að fulltrúar hópsins muni heimsækja Ísland til þess að staðfesta árangurinn, stefnt er að því að heimsóknin fari fram í byrjun september en ákveðin dagsetning hefur ekki verið staðfest.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að verði árangur Íslands staðfestur af fulltrúum hópsins megi gera ráð fyrir því að á næsta fundi FATF, sem fram fer í október, verði lögð fram tillaga um að Ísland verði tekið af gráa listanum.
Gleðifréttir. Í dag fór fram fundur hjá FATF og þar var staðfest að við höfum komið þeim aðgerðum sem útaf stóðu í framkvæmd með fullnægjandi hætti. Ef sá árangur verður staðfestur í haust er von um að losna af gráa listanum í október. https://t.co/lL9PgTIiww
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) June 24, 2020