Innlent

Fögnuðu sjö­tíu ára af­mæli vígslu Heið­merkur

Atli Ísleifsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur við gróðursetningu í hádeginu.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur við gróðursetningu í hádeginu. Vísir/Frikki

Sjötíu ár eru í dag liðin frá vígslu Heiðmerkur og opnun fyrir almenningi. Skógræktarfélag Reykjavíkur stóð að því tilefni fyrir athöfn á Vígsluflöt þar sem sjö stórum trjám var plantað – einn fyrir hvern áratug sem liðinn er frá opnuninni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, undirrituðu af því tilefni samning um Loftslagsskóga, en ætlað er að veita fólki, fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að gróðursetja eða láta gróðursetja tré til kolefnisjöfnunar.

„Skógarnir verða einkum í Esjuhlíðum og á Geldinganesi og munu binda kolefni, auka skjól og stuðla að bættri lýðheilsu,“ líkt og segir í tilkynningu Skógræktarfélagsins.

Á heimssíðu Skógrætarfélagsins segir að hugmyndir um friðland eða útivistarsvæði þar sem nú er Heiðmörk, megi rekja allt til aftur til seinni hluta 19. aldar. 

„Þær náðu þó ekki flugi fyrr en liðið var á fjórða áratug tuttugustu aldar. Svæðið þar sem nú er Heiðmörk var þá illa farið vegna beitar og uppblástur. En frumkvöðlar í skógrækt börðust fyrir því að friða landið, vernda þær skógarleifar sem eftir væru og rækta skóglendi, þar svo fólk gæti komið saman og notið náttúrunnar. Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti landið og friðaði árið 1947. 25. júní 1950 var Heiðmörk svo vígð við hátíðlega athöfn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×