Innlent

Lög­maður eig­andans segir ekki vitað hversu margir bjuggu í húsinu

Sylvía Hall skrifar
Þrír létust í brunanum. 
Þrír létust í brunanum.  Vísir/Vilhelm

Skúli Sveinsson, lögmaður HD Verk, segir brunavarnir hússins hafa verið í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar voru til hússins. Húsnæðið hafi verið íbúðarhúsnæði og leigt út til einstaklinga.

Hann segir eigendur vita hverjir leigja þar hverju sinni en fleiri gætu þó hafa búið í húsnæðinu eða dvalið þar þegar bruninn varð. Sá hluti hússins þar sem manntjón varð var þó leyfilegt íbúðarhúsnæði.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað bjuggu þarna margir, enda eru engar sérstakar takmarkanir á því hversu margir mega búa í íbúðarhúsnæði,“ segir Skúli í samtali við fréttastofu. Hann ítrekar þó að það hafi ekki búið 73 í húsnæðinu þrátt fyrir að svo margir hafi verið skráðir með lögheimili þar.

188 hafa verið skráðir til lögheimilis á Bræðrabrogarstíg 1 frá árinu 2007, 115 eru brottfluttir og enn eru 73 skráðir til lögheimilis.

Skúli segir ekki á ábyrgð fasteignareigandans hversu margir voru skráðir til heimilis þar heldur Þjóðskrár. Líklegast hafi verið um fyrri leigjendur að ræða sem hafa ekki breytt skráningunni.

Að sögn Skúla er HD Verk fyrst og fremst fasteignafélag sem eigi nokkrar fasteignir sem séu leigðar út. Hann þvertekur fyrir það að fyrirtækið hafi tengsl við starfsmannaleigur.


Tengdar fréttir

Enginn slökkvi­bílanna var full­mannaður

Enginn slökkvibíll Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var fullmannaður þegar útkall barst um eld í húsi við Bræðraborgarstíg í fyrradag. Þrír létust í brunanum og fjórir slösuðust þar af tveir alvarlega. Hluti áhafna slökkvibílanna voru að sinna neyðarflutningum.

Áhætta fylgdi ósamþykktum breytingum á húsinu

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna brunans á Bræðraborgarstíg. Eldurinn sem talinn er vera af mannavöldum kom upp í kringum vistarverur hans í húsinu. Þrír létust og fjórir slösuðust í brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×