Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í Klébergsskóla á Kjalarnesi þar sem hlúð er að fólki og veittur sálrænn stuðningum þeim sem óska þess vegna alvarlegs umferðarslyss sem varð á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi á fjórða tímanum í dag.
Viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út síðdegis vegna slyssins en húsbíll og tvö bifhjól lentu í árekstri fyrir norðan þéttbýlið á Kjalarnesi sunnan við Hvalfjarðargöng.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi og sendu lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðið marga bíla á staðinn, en minnst þrír sjúkrabílar og tveir dælubílar slökkviliðsins voru sendir á vettvang. Þá var Hvalfjarðargöngunum lokað og hluta Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.
Uppfært klukkan 18:37: Búið er að loka fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Kjalarnesi. Áfram verður þó veittur sálrænn stuðningur til þeirra er þess óska. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.