Erlent

Bakarí Kristínar brann til grunna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá vettvangi brunans.
Frá vettvangi brunans. Huy Bunleng News

Bakarí í eigu Kristínar Báru Haraldsdóttur og Adrian Cowen í Kambódíu brann til kaldra kola þann 11. júní síðastliðinn. Hafin er söfnun til að þau geti hafið rekstur á ný, sem fram að brunanum hafði ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

Kristín og Adrian segjast hafa flust til Otres Villages í Kambódíu eftir að hafa verið búsett í New York í Bandaríkjunum til margra ára. Þau hafi kunnað vel við sig í Kambódíu og orðið „ástfangin af landi og þjóð“ eins og þau orða það á vefsíðu söfnunarinnar.

Kristín og Adrian settu á fót bakaríið Bake and Bake fyrir um fjórum árum, sem sérhæfir sig í framleiðslu innpakkaðra smákaka sem seldar eru víðsvegar um Kambódíu. Þó svo að þau segi að rekstur þeirra hafi verið sjálfbær áður en hann brann til grunna eiga kambódísk stjórnvöld að hafa reynst þeim óþægur ljár í þúfu.

Þau hafi þannig endurskipulagt stóran hluta Otres Village fyrir um hálfu ári síðan, tekið landsvæði eignarnámi og jafnað upprunalegt húsnæði Bake and Bake við jörðu. Þrátt fyrir raskið hafi kambódísk stjórnvöld ekki boðið Kristínu, Adrian né öðrum íbúum svæðisins neinar sárabætur.

Bakaríið var því opnað á nýjum stað, sem svo brann svo til grunna að morgni 11. júní sem fyrr segir. Engin slys urðu þó á fólki. Hafin er hópsöfnun fyrir aðstandendur Bake and bake og ætla þau sér að safna næstum 46 þúsund sterlingspundum, um 8 milljónum króna, svo þau geti hafið rekstur á ný. Söfnunina og frekar upplýsingar má nálgast með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×