Atkvæðagreiðsla um kjarasamning Flugfreyjufélags Íslands við Icelandair hefst á næstu dögum en kosning hefur tafist vegna undirbúnings kjörskrár. Unnið er nú að því að undirbúa kjörskrá að sögn Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur, formanns FFÍ.
Kjarasamningur var undirritaður af samninganefndum FFÍ og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair aðfaranótt fimmtudagsins 25. júní síðastliðinn eftir sextán klukkustunda fund og var samningurinn kynntur félagsmönnum á föstudag. Guðlaug sagði í samtali við fréttastofu í gær að hún geri ráð fyrir að samningurinn verði samþykktur af félagsmönnum.
Samningurinn felur í sér talsverðar breytingar á eldri samningum að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, en þó verði áfram staðið vörð um ráðstöfunarkjör starfsfólks og vinnuumhverfi þeirra. Ein af áherslum Flugfreyjufélagsins var aukið starfsöryggi sem á að vera tryggt í nýjum samningi.
Þá var hlutafjárútboði Icelandair frestað fram í ágúst nái Icelandair að ljúka samkomulagi við helstu hagaðila sína í júlí. Viðræður við flugvélaleigusala, færsluhirði og flugvélaframleiðandann Boeing séu til að mynda enn í gangi.