Innlent

Fluttur á og af bráðadeild í járnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bráðamóttaka Landspítalans er til húsa í Fossvogi.
Bráðamóttaka Landspítalans er til húsa í Fossvogi. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Um stundarfjórðungi eftir að skemmtistaðir borgarinnar lokuðu í gærkvöldi segist lögreglan hafa afskipti af dauðadrukknum karlmanni í Austurstræti. Ölvun mannsins var slík að lögregluþjónar töldu öruggast að flytja manninn á bráðadeild, að líkindum til að hann færi sér og öðrum ekki að voða.

Á bráðadeildinni var maðurinn hins vegar „til vandræða“ eins og það er orðað í orðsendingu lögreglunnar og ekki talið öruggt að vista hann þar. Lögregluþjónar fluttu manninn því af bráðadeild í járnum og beinustu leið í fangaklefa, þar sem hann mun dvelja þangað til ástand hans batnar.

Þá segist lögreglan hafa handtekið tvo ofbeldismenn í Árbæ í gærkvöld. Annar þeirra var farþegi í bíl ökumanns sem talinn er hafa verið ölvaður undir stýri. Ökumaðurinn og farþeginn voru því báðir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Þaðan fengu þeir þó að halda aftur út í nóttina að lokinni skýrslutöku.

Hinn ofbeldismaðurinn var handtekinn á fjórða tímanum í nótt, eftir að hafa slegið fórnarlamb sitt hnefahöggi í andlitið. Við það eiga tvær tennur þess slegna að hafa brotnað. Árásarmaðurinn gistir nú fangageymslur lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×