Erlent

Japanskir nætur­göltrarar sýkjast í tuga­vís

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íbúar Tókýó hafa verið varaðir við því að kórónuveirufaraldurinn gæti náð sér aftur á strik í borginni.
Íbúar Tókýó hafa verið varaðir við því að kórónuveirufaraldurinn gæti náð sér aftur á strik í borginni. Ap/Eugene Hoshiko

Annan daginn í röð greindust á annað hundrað kórónuveirusmit í Tókýó, höfuðborg Japans, sem er sagt valda þarlendum heilbrigðisyfirvöldum áhyggjum. Flest hinna smituðu sýktust á öldurhúsum og skemmtistöðum.

Alls voru 124 smit staðfest meðal íbúa höfuðborgarinnar í dag að sögn japanskra miðla. Það er mesti fjöldi sem mælst hefur í borginni frá því að undið var ofan af samfélagslegum takmörkunum vegna faraldursins í lok maí.

Raunveruleg hætta er talin á að kórónuveiran nái vopnum sínum á ný í Tókýó. Ráðamenn borgarinnar létu þannig hafa eftir sér í nótt að íbúar megi fara að undirbúa sig undir smit á heimilum, vinnustöðum og hjúkrunarheimilum. Þarlendar sjúkrastofnanir hafi þegar fengið fyrirmæli um að búa sig undir fleiri innlagnir vegna faraldursins.

Flest hinna nýju smita greindust, að sögn Japan Times, meðal fólks á þrítugs og fertugsaldri sem höfðu sótt skemmtistaði Tókýóborgar heim. Hin smituðu voru nær alfarið einkennalaus og ekkert þeirra hafði þróað með sér alvarleg sýkingareinkenni.

Sem fyrr segir voru 124 smit greind í Tókýó í dag, föstudag, en þau voru 107 í gær. Ekki hafa fleiri smit greinst í höfuðborginni síðan 2. maí, þá voru þau 154 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×