Skoðun

Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

Kolbrún Eva Kristjánsdóttir og Heimir Freyr Heimisson skrifar

Að sækja um nám

Alltaf er manni sagt að maður geti orðið það sem maður vill, við ölum upp börnin okkar á þessum orðum.

Sannleikurinn er ekki svo einfaldur.

Fólkið sem ákveður að eignast börn fyrst, vinna, koma sér fyrir í lífinu og mennta sig svo, það fólk á ekkert svo auðvelt með að “verða það sem það vill verða” Eða mennta sig í því sem það langar.

Við hjónin höfum bæði lokið ígildi stúdentspróf, ég hjá Frumgreinadeild HR og hann hjá Keili, og þetta nám eru hannað og ætlað fyrir fólk eins og okkur, sem ákvað að fara aðrar leiðir í lífinu heldur en að byrja á því að mennta sig. Námið er auglýst þannig að það ætti að veita þér inngöngu inní flesta Háskóla hérlendis sem og erlendis.

Er það raunin? Aldeilis ekki!

Nú sóttum við bæði um nokkrar brautir í HA í fyrra haust, hann sótti um þrjár brautir og ég tvær, við útskrifumst bæði með mjög fínar einkunnir. Við komumst ekki inn í neitt af því sem við sækjum um, vegna þess að við fyllum í rauninni ekki uppí þessa kröfu að vera með stúdentspróf.

Þetta er svarið sem allir fá sem fá synjun:

  1. Umsækjandi uppfylli ekki inntökuskilyrði
  2. Staðfest afrit af námsferli/stúdentsprófi/prófskírteini barst ekki í tæka tíð
  3. Forgangsraða þurfti umsóknum vegna mikillar aðsóknar og umsóknin ekki uppfyllt nægilega þá matsþætti sem voru til grundvallar

Meðaleinkunn 8,XX ekki nóg

Maðurinn minn sækir svo um lögreglunám við HA núna og fær synjun á sömu forsendum. Sem er óskiljanlegt svona miðað við hvað er stanslaust verið að tala um hvað vantar mikið af lögreglumönnum hér, og þessi maður á fullt erindi í þetta starf þó svo ég segi sjálf frá (hlutlaust mat)

Og þegar fólk er komið yfir 35, er það nú komið með ágætis lífs-og starfsreynslu, orðið þroskaðra heldur en nýútskrifaður menntaskælingur, búið upplifa hitt og þetta, sem gefur fólki aðra sýn á lífið og er með aðrar áherslur heldur en þegar maður er um tvítugt.

Hefði maður haldið að horft væri á þessi atriði, já. Er það raunin?

Virðist ekki vera, sem er einstaklega sorglegt þar sem það vantar gott fólk í þessi störf. Einnig er kynjakvóti í lögreglunámið, þeir taka inn jafnmikið af konum og körlum, þó svo að annað kynið gæti verið hæfari einstaklingur heldur en hitt.

Þessi pistill snýst alls ekki einungis um lögreglunámið, heldur aðgengi að námi fyrir fólk sem er komið með lífsreynslu, með vinnu, heimili og börn, langar að mennta sig meira og “verða” loksins eitthvað. Sem dæmi eftir synjunina í lögreglufræðinni, ákveður hann að sækja um sálfræðibraut við HA þangað til að opnast aftur fyrir inntöku í lögreglufræði (eftir s.s. ár) Sálfræði er einnig áhugasvið og tengist nú að miklu leyti starfi lögreglu. Hann fær enn og aftur synjun á sömu forsendum.

Maður með meðaleinkunn ágætlega yfir 8.

Framboð í lágmarki 

Það eru ekki allir skólar hér sem bjóða uppá fjarnám fyrir fólk “eins og okkur” (komin yfir þrítugt, með börn og buru) Við höfum ekki tök á því að stunda nám við Hí, við höfum ekki tök á því að hætta að vinna og henda okkur í staðnám, þess vegna er fjarnám svo sniðugt og besti kosturinn.

Háskólinn á Akureyri er eini skólinn sem býður upp á fjarnám á öllum brautum hjá sér en þeir taka ekki inn fólk sem útskrifast frá Keili, og greinilega ekki HR heldur.

Háskóli Íslands er með einstaklega lélegt fjarnámsframboð, nánast ekki neitt, Bifröst er ekki fyrir millistéttarfólk eins og mig sjálfa, og Háskóli Reykjavíkur ekki heldur, bara skólagjöldin í þeim skólum geta sligað fólk.

Þetta gerir manni nánast ómögulegt að mennta sig komin á þennan aldur ef þú þarft að taka fjarnám með vinnu.

Nú erum við bæði komin yfir 30 árin, höfum lagt blóð svita og nánast tár í það að ná okkur í þá menntun sem á að gera okkur kleift að sækja um háskóla svo maður geti nú orðið það sem maður vill þegar maður “verður stór”

Nei sorry, þú getur ekki orðið það sem þú vilt, eru þetta skilaboðin sem við þurfum að fara segja börnunum okkar?

Mikið vona ég ekki. Við erum fyrirmyndirnar þeirra, við viljum sýna þeim að sama hvað þá getur alltaf menntað þig.

Ekki þau einu

Við könnuðum málið og höfðum samband við framhalsskóla hér í bænum og könnuðum hvað vantaði uppá til þess að fá fullgilt stúdentspróf, miðað við að komast inná t.d. viðskiptabraut, 13 áfanga vantaði uppá, 13! Við sendum inn einkunnir og allt sem þurfti, sem annað okkar hafði lokið á öllum námsferlinum, mörg ár aftur í tímann.

Finnst okkur þetta bara í lagi að fólk sem er búið að leggja þetta á sig að ná sér í þessa menntun komist ekki í þann Háskóla eftir að hafa lokið strembnu námi með þetta að markmiði?

Nú í ljósi þess að ungur drengur nýútskrifaður steig fram með sína sögu á visir.is, dúx með nánast fullkomna mætingu, “lenti” í þessu sama að komast ekki þarna inn, því framhaldsskólinn sem hann var í uppfyllir ekki þær kröfur sem HA setur, þá finnst mér kominn tími á að þetta inntökuferli verði endurskoðað hjá Háskólanum á Akureyri og að einhver stígi inní.

Nú biðla ég til ráðherra og annara sem að málinu koma að gera eitthvað í þessu, það er óboðlegt að fólk sem hefur metnaðinn, viljann og getuna að mennta sig geti það ekki. Eins og gefur að skilja erum við einstaklega ósátt og frústreruð yfir þessi og finnst þörf á að varpa ljósi á þetta.

F.h. allra “ómenntaða” foreldra og annarra einstaklinga í sömu stöðu.




Skoðun

Sjá meira


×