Brighton sigraði Norwich í ensku úrvalsdeildinni núna í hádeginu en með sigrinum eru þeir nánast öruggir um áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni.
Leikurinn var fremur bragðdaufur, lítið var um marktilraunir en heimamenn í Norwich voru þó meira með boltann.
Belgíski vængmaðurinn Leandro Trossard skoraði það sem reyndist eina mark leiksins fyrir Brighton á 25. mínútu eftir sendingu frá Aaron Mooy. Í uppbótartíma fengu Norwich hættulegt færi til að jafna þegar Adam Idah skallaði boltann í stöngina. Brighton slapp með skrekkinn og lokatölur 1-0.
Brighton eru eftir leikinn í 15. sæti með 36 stig, níu stigum fyrir ofan fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir. Norwich er enn á botninum með 21 stig og er svo gott sem fallið.