Norður-kóresk yfirvöld hafa áréttað að engin áform sé uppi um að hefja viðræður um kjarnorkuvopnamál við yfirvöld í Washington. Ekki nema að Bandaríkjastjórn láti af því sem kallað eru fjandsamlegum stefnum í málefnum Norður-Kóreu.
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi í stjórn Donald Trump hafði velt því upp á dögunum að mögulega myndi Trump kalla til viðræðna við Kim Jong un leiðtoga Norður Kóreu í október. Sagði Bolton að Trump gæti nýtt þær viðræður til þess að fleyta sér áfram í kosningabaráttunni enda forsetakosningar fram undan í nóvember.
Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Choe Son Hui sagði þetta þó tóman þvætting í yfirlýsingu sem gefin var út.
Kim og Trump hafa fundað í þrígang frá því að Trump tók við forsetaembættinu árið 2017 en viðræðurnar hafa farið fram án árangurs. Á fundi leiðtoganna í Víetnam í fyrra eru Bandaríkjamenn sagðir hafa hafnað kröfum Norður-Kóreu um ívilnanir í skiptum fyrir það að Norður-Kórea láti af kjarnorkuvopnavæðingu sinni.
Forseti Suður-Kóreu, nágrannaríkis Norður-Kóreu, Moon Jae-in hefur barist fyrir því að viðræður milli kjarnorkuveldanna tveggja hefjist að nýju. Sagðist hann í samtali við leiðtoga Evrópuríkja í vikunni að hann vonaðist eftir því að leiðtogarnir myndu hittast og ræða málin fyrir kosningarnar í nóvember.
„Er mögulegt að hefja samtal eða viðræður við Bandaríkin á meðan að fjandsamlegar stefnur ríkisins gagnvart Norður-Kóreu eru til staðar,“ sagði í yfirlýsingu Choe Son Hui.
„Við finnum ekki fyrir þörf á því að setjast niður með Bandaríkjastjórn þar sem að hún telur samtal milli ríkjanna ekki vera neitt nema tól til þess að takast á við stjórnmálakrísuna sem ríkir í landinu,“ sagi einnig í yfirlýsingunni.