Innlent

Komust naumlega undan grjóthruni í Esjunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er vinsælt að ganga á Esjuna.
Það er vinsælt að ganga á Esjuna. Vísir/Vilhelm

Tvær konur sem voru á göngu í Esjunni forðuðu sér naumlega undan grjóthruni úr klettabeltinu austan við Þverfellshornið. Önnur þeirra hlaut smávægileg meiðsli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni þar sem segir að á ellefta tímanum í morgun hafi göngufólk í Esjunni orðið vart við miklar drunur og grjóthrun í fjallinu.

„Stór grjót féllu úr klettabeltinu austan við Þverfellshornið og beint yfir göngustíginn. Tvær konur náðu naumlega að forða sér undan skriðunni sem var nokkuð stór. Önnur þeirra hlaut smávægileg meiðsl,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Skriðan féll á gönguleiðina sem er hægra megin, eða austar í Esjunni, austan við Þverfellshornið, frekar ofarlega ofan við Mógilsá. Fólk sem hyggur á útivist á Esjunni ætti að hafa sérstakan vara á sér og fara gætilega því það gæti enn verið laust grjót á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×