Erlent

Broadway-stjarna lést eftir baráttu við Covid-19

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Cordero var 41 árs.
Cordero var 41 árs. Vivien Killilea/Getty

Broadway-leikarinn Nick Cordero lést í gær af völdum Covid-19. Hann var 41 árs.

Frá þessu er meðal annars greint á vef CNN, en eiginkona Cordero, Amanda Kloots, greindi fyrst frá andláti hans á Instagram-reikningi sínum.

„Guð hefur fengið sendan nýjan engil. Elskulegur eiginmaður minn lést í morgun. Hann var umvafinn ást hjá fjölskyldu sinni sem söng og bað á meðan hann yfirgaf þessa jarðvist,“ skrifaði Kloots meðal annars á Instagram.

Cordero greindist með Covid-19 í mars á þessu ári og var fljótlega lagður inn á spítala. Kloots uppfærði aðdáendur leikarans reglulega um stöðuna á honum, en honum var haldið sofandi í öndunarvél á einum tímapunkti.

Þá hlaut Cordero alvarlega lungnaskaða af sjúkdóminum, en Kloots hefur sagt frá því að hann hefði líklega þurft tvö ný lungu til þess að ná sér af eftirköstum sjúkdómsins.

Cordero var fæddur og uppalinn í Kanada, en fluttist síðar til New York og reyndi fyrir sér í leiklist.

Hann er meðal annars þekktur fyrir hlutverk sín í Boradway-verkum eins og Waitress og A Bronx Tale.

Eins kom hann fram í vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við Blue Bloods, Law & Order: Special Victims Unit og Lilyhammer.

Cordero kynntist Kloots þegar þau unnu saman að verkinu Bullets over Broadway, hvar hann lék og hún dansaði. Cordero var árið 2014 tilnefndur til Tony-verðlaunanna fyrir leik sinn í því verki.

Auk eiginkonu sinnar lætur Cordero eftir sig einn son sem þau áttu saman, hinn eins árs gamla Elvis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×