Innlent

Upp­lýsinga­fundur mitt í skimunar­ó­vissu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir hafa stýrt upplýsingafundum í kórónuveirufaraldrinum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir hafa stýrt upplýsingafundum í kórónuveirufaraldrinum. Vísir/Vilhelm

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar fyrir blaðamenn í dag klukkan 14:00 í húsakynnum Landlæknisembættisins í Katrínartúni. Fundurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.

Farið verður yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og kórónuveiruna hér á landi. Talsverðar sviptingar hafa verið í skimunarmálum síðasta sólarhringinn eftir að Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tilkynnti í gær að fyrirtækið hygðist hætta aðkomu að skimunum og slíta öllum veirutengdum samskiptum við landlækni og sóttvarnalækni. Enn sem komið er ríkir því óvissa um framtíðarfyrirkomulag skimana hér á landi.

Ekki kemur fram í tilkynningu hverjir taka til máls á fundinum en fundirnir hafa hingað til verið í höndum þríeykisins Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, Ölmu Möller landlæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.

Líkt og áður segir verður sýnt beint frá fundinum klukkan 14 í dag hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×