Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur boðað bann á stórum viðburðum, svo sem brúðkaupum og erfidrykkjum til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar en smitum í Íran hefur farið fjölgandi undanfarið. Hann hefur þó sagt að fyrirtæki muni áfram vera opin til að reyna að halda áhrifum á efnahag landsins í lágmarki.
Stuttu eftir tilkynningu Rouhani, sem var sjónvarpað, tilkynnti talsmaður lögreglunnar í Tehran, höfuðborg landsins, að öllum viðburðarsölum í borginni yrði lokað þá og þegar. Írönsk stjórnvöld hafa frá miðjum apríl létt hægt og rólega á takmörkunum en nýlega varð aukningin í kórónuveirusmitum mjög snögg.
188 létust síðasta sólarhringinn í Íran og er tala látinna því orðin 12.635 en fjöldi þeirra sem greinst hafa með veiruna þar í landi er orðinn 255.117 og fjölgaði smitunum um 2.397 síðasta sólarhringinn. „Við þurfum að banna allar trúarathafnir og fjöldasamkomur í landinu öllu, hvort sem það eru erfidrykkjur, brúðkaup eða veislur,“ sagði Rouhani.
Þá sagði hann að inntökuprófum í háskólana yrði líklega frestað. Rouhani og fleiri embættismenn hafa kennt stórum samkomum um skyndilega fjölgun smita.