Erlent

Gerðu hús­­leit á heimili hjóna sem miðuðu byssum á mót­­mælendur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mark og Patricia McCloskey taka á móti mótmælendum fyrir utan heimili þeirra í St. Louis þann 28. júní síðastliðinn.
Mark og Patricia McCloskey taka á móti mótmælendum fyrir utan heimili þeirra í St. Louis þann 28. júní síðastliðinn. Vísir/AP

Lögregla í borginni St. Louis í Missouri gerði í gærkvöldi húsleit á heimili hjóna sem brugðu byssum á mótmælendur í júní. Myndbönd af atvikinu vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Lögreglumenn fóru inn á heimili hjónanna á föstudagskvöld og gerðu þar upptækan hálfsjálfvirkan riffil. Svo virðist sem þar sé um að ræða riffilinn sem lögfræðingurinn Mark McCloskey hélt á er hann tók á móti mótmælendum í St. Louis þann 28. júní.

Hópurinn var þá á leið að nærliggjandi heimili borgarstjóra St. Louis til að mótmæla ofbeldi lögreglu í garð svartra Bandaríkjamanna. Patricia McCloskey, eiginkona Marks og einnig lögfræðingur, miðaði skammbyssu sinni á mótmælendur.

McCloskey-hjónin, sem bæði eru hvít, segjast hafa óttast um líf sitt umræddan dag og þess vegna hafi þau gripið til vopna. Í myndböndum sem birst hafa á samfélagsmiðlum sjást þau hrópa á mótmælendurna og segja þeim að yfirgefa svæðið. Nokkrir úr hópnum heyrast hrópa á móti að enginn ætli sér að gera þeim hjónum nokkurt mein.

Í myndbandinu hér fyrir ofan má sjá samskipti hjónanna við mótmælendur. Þar má einnig sjá Mark McCloskey lýsa því í viðtali að hann hafi óttast að mótmælendurnir myrtu þau hjónin „á örskotsstundu“.

Þegar myndbönd af atvikinu hófu að vekja athygli á samfélagsmiðlum sagði Kimberly Gardner, aðalsaksóknari St. Louis-borgar, að málið yrði rannsakað. Hún kvaðst jafnframt uggandi yfir myndböndunum og sagði að kannað yrði hvort hjónin hefðu brotið á rétti borgara til friðsamlegra mótmæla.


Tengdar fréttir

„Þú munt drepa mig, maður“

Bandaríski fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem varð valdur að dauða George Floyd í Minneapolis í Minnesota í Bandaríkjunum í lok maí á þessu ári, sagði Floyd ítrekað að hætta að tala á meðan hann hélt hné sínu að hálsi hans í nærri átta mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×