Kvikmyndaskóli Íslands hyggst flytja starfsemi sína að Suðurlandsbraut 18. Skólinn stendur nú við Grensásveg 1 og mun því flytja rétt rúmlega 600 metra. Suðurlandsbraut 18 hýsti upphaflega höfuðstöðvar Olíufélagsins og er hannað af Guðmundi Kr. Kristinssyni og Ferdinand Alfreðssyni.
Í orðsendingu frá skólanum segir að forsvarsmenn hans hafi gert 20 ára samning um leigu húsnæðisins. Skólinn muni leigja 70 prósent af húsinu í fyrsta áfanga en stefnt sé að því að allt húsið verði komið í leigu Kvikmyndaskólans innan þriggja ára, „samhliða vexti alþjóðlegrar deildar við skólann.“
Nú hefjist þau handa við að laga húsnæðið að starfsemi Kvikmyndaskólans. Byggð verði myndver og tæknirými á neðstu hæðunum. Á efri hæðunum verði leiklistarsalir, kennslurými og ýmsar vinnslustöðvar.