Vinur og nágranni Páls Guðmundssonar, listamanns á Húsafelli, segir Pál og þá félaga hans sem komu að uppbyggingu húss sem hýsa átti legsteinasafn seinþreytta og vonsvikna út í Borgarbyggð fyrir framgöngu hennar í máli safnsins. Héraðsdómur Vesturlands dæmdi í gær að Páll skyldi fjarlægja húsið af lóð Bæjargils á Húsafelli sem er í eigu Páls.
Páll er búsettur á Húsafelli 2 en nágranni hans, Sæmundur Ásgeirsson sem búsettur er á Húsafelli 1 er afar ósáttur með byggingu hússins á lóð Bæjargils sem liggur að landareign Sæmundar. Sæmundur kærði málið og er Páli gert að fjarlægja húsið innan tveggja mánaða ellegar þurfa að greiða 40 þúsund króna dagsekt til Sæmundar.
„Þetta var hannað sem safn fyrir legsteina sem forfeður Páls Guðmundssonar gerðu hérna í Húsafelli og eru miklar menningarminjar og hafa verið að grotna niður. Hugmynd Páls var að þetta gæti farið inn í hús og verið á staðnum og þetta var gert af miklum metnaði með arkitektum sem eru vanir svona hlutum,“ segir Helgi Eiríksson, vinur og nágranni Páls í samtali við fréttastofu. Fleiri vinir Páls standa að verkefninu með honum. „Þetta er ekkert fyrirtæki, þetta er bara Páll sjálfur sem byggir á þessu og við vinir hans erum að hjálpa honum. Hann á marga góða að.“
Bæjargil og Húsafell 1 eru staðsett sunnan við Húsafellskirkju en Húsafell 2 liggur norðan hennar. Þá er heimreiðin að Bæjargili og Húsafelli 1 sú sama og hefur Sæmundur, að sögn Helga, deilt um hvort húsið væri á landi Páls eða ekki. „Hann hefur deilt um að þetta væri ekki inni á landi Páls en þetta er fullkomlega inni á hans landi, það er staðfest.“
„Borgarbyggð klúðraði“
Hann segir tilfinningu þeirra fyrir ákvörðun héraðsdóms ekki góða. „Því miður, þetta er ekki svo auðvelt mál því að við erum búnir að vinna í þessu í nokkur ár að keyra þetta áfram. Misst byggingarleyfið allt út af kærum sem hann heldur áfram með. Grunnurinn að þessu er fyrst og fremst það að Borgarbyggð gefur út skipulag fyrir svæðið svo þessi menningarstarfsemi og safn gætu rúmast á svæðinu. Það var gert árið 2015 og það tekur gildi, eða við vissum ekki betur en það tæki gildi. Tveimur árum seinna fáum við að vita það að það hefur aldrei öðlast gildi vegna þess að Borgarbyggð klúðraði auglýsingu og landslagsarkitektinn klúðraði hnitapunktum og skráningu sem voru bara smáatriði. Þá komst hann í þessa stöðu að geta kært þetta og gerði það náttúrulega.“
„Það er svo knappur tími í þessu og lítið hægt að gera á tveimur mánuðum,“ segir Helgi en Páli er gert að fjarlægja húsið af lóðinni Bæjargili innan tveggja mánaða annars þurfi hann að greiða 40 þúsund króna dagsektir til Sæmundar. „Við getum ekki séð að við getum látið það standa miðað við þessar dagsektir, það eru einhver tólf hundruð þúsund á mánuði. Það eru engir peningar til að eyða í svoleiðis.“
„Það er búið að dragast gríðarlega lengi þetta mál og svo allt í einu kemur það upp núna í þessu Covid-veseni og það gekk ekkert upp,“ segir Helgi.
Vona að Borgarbyggð sjái sóma sinn í að finna leið til að húsið geti staðið áfram
„Borgarbyggð er búin að setja af stað skipulagsvinnu þar sem gert er ráð fyrir þessum hlutum og settu út skipulagsauglýsingu sem mun gera þetta löglegt en það er trúlega bara of seint. Við erum búin að biðja um þá vinnu hjá Borgarbyggð í nokkur ár.“
Hann segir fjárhagslega tjónið gríðarlegt högg en það kostaði um 40 milljónir króna að láta reisa húsið. „Þá er ég ekki að tala um alla sjálfboðavinnuna sem fór í að reisa þetta.“
„Þetta er rosalegt tjón, alveg rosalegt. Fyrir utan það að það er dýrt að láta fjarlægja þetta mannvirki. Það er steypt og rammbyggt fyrir þessa steina, til að geta hýst menningarverðmæti.“
Eruð þið vongóðir um að þið fáið þessari ákvörðun snúið við?
„Við erum bara ekkert vissir um það vegna þess að það hlýtur að vera annarra að ákveða en okkar. Við getum voða lítið annað gert úr þessu en að vona að einhverjir aðrir eins og Borgarbyggð sjái sóma sinn í að finna einhverja leið til að húsið geti verið þarna áfram þó að það verði ekki legsteinasafn. Það getur tekið eitt til tvö ár í viðbót að klára þetta skipulag,“ segir Helgi.
„Það er bara orðinn of langur tími til þess að við getum opnað þarna nokkra starfsemi. Hún rúmast bara ekki innan skipulagsins. Safnastarfsemi rúmast ekki í Húsafelli samkvæmt aðalskipulagi. Svo merkilegt er það. Það er náttúrulega ótrúlegt alveg! Þetta er menningarstaður í hundruð ára.“
Verkefnið hefur verið unnið í miklu samstarfi við Biskupsstofu en eftir átti að vinna alla vinnu við að endurheimta legsteinana. „Þjóðminjavörður og öll sú starfsemi þarf að koma að þessu því það erum ekki við sem gerum það að setja steinana inn. Við sköffum húsið og ætlunin var að þetta yrði safn eins og önnur söfn um þjóðminjar,“ segir Helgi.
Páll er svona maður sem vill bara fá að vera í friði
Helgi segir legsteinana hafa átt stórt hlutverk í listsköpun Páls í gegn um tíðina en forfeður hans voru þeir sem þá gerðu. Steinarnir séu margir hverjir illa farnir, sumir þó enn heilir, en þeim þurfi að bjarga þar sem þeir eigi hvergi heima. „Hann vill heiðra þeirra minningu og vernda þessa steina. Páll er svona maður sem vill bara fá að vera í friði. Þetta er mikið inngrip fyrir svona mann.“
„Páll er fórnarlamb kerfisins í þessu tilfelli, ekkert annað. Ef menn fara ofan í vinnubrögðin hjá Borgarbyggð sjá þeir hvað þau hafa verið léleg. Auðvitað héldum við áfram að byggja en við hefðum mátt vita að þetta gæti gerst en við bara trúðum því ekki.
Hann segir að þeir séu vonsviknir út í Borgarbyggð fyrir seinagang í málinu. „Við verðum að segja að við erum seinþreyttir og við erum vonsviknir. Við erum vonsvikin að Borgarbyggð hafi ekki tekist að klára sín skipulagsmál. Það er fyrst og fyrst það því að við værum ekkert í þessum málaferlum ef að Borgarbyggð hefði á sínum tíma klárað þetta eins og það var lagt fyrir. Það er ótrúlegt að það sé hægt að vinna svona að málum.“
Hefði gengið frá Páli hefði Pakkhúsið farið
Í ljós kemur að sögn Helga á næstu dögum hvort eitthvað verði hægt að gera í málinu. Fundað verði með lögmönnunum í næstu viku en Helgi segist ekki viss um það hvort hægt sé að áfrýja dómnum. „Þetta lítur ekki vel út, því miður. Það er of stuttur tími og lítið hægt að gera. Það verða einhverjir aðrir að finna úr því en við því við erum bara fastir í sömu sporum.“
Sæmundur gerði einnig kröfu til þess að pakkhúsið svokallaða, sem einnig stendur á landi Bæjargils, yrði fjarlægt. Þeirri kröfu var hins vegar vísað frá dómnum svo það fær að standa áfram. Helgi segir það mikla mildi en í pakkhúsinu er yfirgripsmikið safn hljóðfæra sem Páll hefur smíðað í gegn um tíðina.
„Það hefði verið stórkostlega slæmt að missa, sem er listasafn Páls. Það féll á tíma, það er að segja, hann var of seinn að kæra það. Sem betur fer bjargaðist það. Það hefði gengið frá Páli algerlega ef það hefði farið.“