Innlent

Úti­vistar­fólk fylgist með veður­spám og að­vörunum

Sylvía Hall og Telma Tómasson skrifa
Mikið vatnsveður var og er á svæðinu og varar Vegagerðin sérstaklega við því að hætta sé á aurskriðum og grjóthruni.
Mikið vatnsveður var og er á svæðinu og varar Vegagerðin sérstaklega við því að hætta sé á aurskriðum og grjóthruni. Veðurstofan

Vegfarendur og útivistarfólk er áfram beðið um að fylgjast vel með veðurspám, taka mark á aðvörunum Veðurstofunnar og kynna sér þær, en appelsínugul viðvörun er á Vestfjörðum og Norðurlandi. Mikið vatnsveður var í gærkvöldi og er enn á svæðinu og varar Vegagerðin sérstaklega við því að hætta sé á aurskriðum og grjóthruni.

Ferðamenn eru varaðir við því að vöð geti verið varhugaverð eða jafnvel ófær í kjölfarið. Snarpar vindhviður geta áfram verið á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Kjalarnesi nú í bítið.

Í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands frá því í nótt segir að talsverð úrkoma sé á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum. Rennsli í Hvalá í Ófeigsfirði mælist yfir 200 ára flóðþröskuldi og megi búast við því að hún haldi áfram að hækka með áframhaldandi úrkomu. Einnig er spáð mikilli úrkomu á Tröllaskaga í dag.

Þá er einnig búist við mikilli úrkomu og leysingum við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul, með hækkandi vatnshæð og miklu rennsli í lækjum og ám. Vöð geta orðið varasöm og ferðafólk hvatt til þess að sýna aðgát við óbrúaðar ár.

Getur orðið hættulegt að hundsa tilmæli 

Elín Jónasdóttir veðurfræðingur biðlar til fólks að fylgja tilmælum Veðurstofunnar og Almannavarna til ferðafólks og almennings. 

Það sé varasamt að fara ýmsar vinsælar gönguleiðir í því veðri sem gengur nú yfir og bendir á aukna skriðuhættu á norðanverðu landinu þegar bætir í rigningu. Fyrir sé mikil skriðuhætta á svæðinu vegna jarðskjálfta.

Mikilli úrkomu er spáð um allt norðanvert landið í dag og á morgun. Kólnað hefur í veðri og getur slyddað eða snjóað til fjalla á þessum stöðum, segir í hugleiðingum veðurfræðings. Jafnframt segir það að ansi hvasst sé á Vestfjörðum og Breiðafirði og hafi hviður mælst allt að 40 metra á sekúndu á þessum svæðum í nótt.

Veðrinu slotar á laugardagskvöld og sunnudag þegar lægðin færist lengra til austurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×