Það þarf ansi mikið að ganga á svo að West Ham spili í ensku B-deildinni á næstu leiktíð en þeir komu sér í góða stöðu með 3-1 sigur á Watford í kvöld.
Michail Antonio, sem skoraði fernu á dögunum, kom West Ham yfir á 6. mínútu og Tékkinn fljúgandi, Tomas Soucek, tvöfaldaði forystuna á tíundu mínútu.
Veislu West Ham var ekki lokið í fyrri hálfleik því miðjumaðurinn Declan Rice skoraði þriðja markið á 36. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Troy Deeney minnkaði muninn fyrir Watford í upphafi síðari hálfleiks með sínu 150. marki í aðalliðs fótbolta en nær komust gestirnir ekki. Lokatölur 3-1.
Leikurinn var síðasti leikur 36. umferðarinnar en með sigrinum komst West Ham upp í 37 stig. Því eru West Ham sex stigum frá fallsæti en Watford er í 17. sætinu, þremur stigum frá fallsæti.