Fótbolti

Hefur fylgst með Ólafi síðan hann stýrði Blikum og segir þjálfara­sætið ekki volgt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Vísir

Jimmi Nagel Jacobsen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Esbjerg, segist hafa fylgst með Ólafi Kristjánssyni frá því að hann stýrði Breiðabliki til sigurs í Íslandsmótinu 2010.

Ólafur var eins og kunnugt er ráðinn Esbjerg fyrir helgi en hann yfirgefur FH eftir tæp þrjú ár í starfi hjá uppeldisfélaginu.

Jimmi Nagel segir í stuttu samtali við Vísi að hann hafi haldið auga með Ólafi frá því að hann tók við Kópavogsliðinu en Jimmi hefur verið yfirmaður hjá Esbjerg frá því í september árið 2018.

Áður var hann umboðsmaður en einnig njósnari hjá félögum eins og FCK.

Hann vildi ekki segja til um það hvenær hann hafði samband við Ólaf og FH í sumar varðandi þjálfarastarfið en segir að Ólafur eigi að koma inn í félagið með sína vitneskju um fótbolta, reynsluna sína og leiðtogahæfni sína.

Jimmi blæs á sögusagnirnar um það að stjórastarfið í Esbjerg sé óöruggur staður til að vera á en alls voru þrír þjálfarar þar í starfi á síðasta ári.

„Áður en við hættum samstarfinu með John Lammers haustið 2019 þá var hann sá þjálfari sem hafði verið þriðja lengst í starfi. Við viljum gjarnan vera með stöðuleika í þessari stöðu og það hefur sannað sig,“ sagði Jimmi.

Hann vildi lítið tjá sig um hvort að félagið myndi leita til Íslands af leikmönnum en hann sagði að félagið væri með augun opin, hvaðan sem leikmennirnir eru.

Jimmi staðfesti einnig að markmiðið væri að fara upp í úrvalsdeild og að Vito Mannone, fyrrum markvörður Arsenal sem lék með Esbjerg á síðustu leiktíð, hafi yfirgefið félagið.


Tengdar fréttir

Þjálfarinn sem getur ekki hætt

Logi Ólafsson hefur margoft sagst vera hættur í þjálfun en alltaf kemur hann aftur. Bak við létta lund Loga er klókur þjálfari sem lætur menn hafa fyrir hlutunum.

„Gat ekki sagt nei endalaust“

Ólafur Kristjánsson segir að árangurinn hafi ekkert með það að gera að hann hætti hjá FH til að taka við Esbjerg í Danmörku. Hann langaði að prófa sig aftur á dönskum vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×