Innlent

Gekk vel fyrsta daginn án Íslenskrar erfðagreiningar

Kristín Ólafsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Virkum smitum Covid-19 fjölgaði um þrjú á milli daga, eitt á landamærum í gær og tvö í fyrradag. Sóttvarnalæknir segir að vel hafi gengið að greina sýni á sýkla- og veirufræðideild en í gær var fyrsti dagur skimunar án þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar.

Í gær voru fimm virk smit í landinu en átta höfðu greinst með jákvætt sýni á landamærum í fyrradag og biðu allir niðurstöðu mótefnamælingar. Samkvæmt nýjustu tölum á covid.is greindist einn með virkt smit á landamærum í gær og sex af þeim átta sem biðu niðurstöðu mótefnamælingar reyndust vera með mótefni en tveir með virkt smit.

„Ég veit það ekki nákvæmlega en ég held að þetta séu erlendir ferðamenn,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Alls eru því nú átta með virkt smit covid-19 í landinu en í heildina hafa 18 greinst með virkt smit covid-19 síðan skimun hófst á landamærum 15. júní.

„Það fara allir í smitrakningu og það eru náttúrulega alltaf einhverjir sem fara í sóttkví sem eru í kringum þessa einstaklinga. En það er ekki mikill fjöldi. Heildarfjöldinn í dag sem er í sóttkví er rúmlega 80 einstaklingar,“ segir Þórólfur.

Í gær var fyrsti dagurinn þar sem sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sá alfarið um að greina sýni eftir að Íslensk erfðagreining hætti að taka þátt.

„Það hefur gengið bara mjög vel,“ segir Þórólfur. „Þau láta bara vel af sér. Þau sýni sem voru greind í gær, þau voru 1190 sýni, þannig að það er töluvert undir hámarksgetunni eins og staðan er núna.“


Tengdar fréttir

Þrjú virk smit bætast við

Einn greindist með virkt kórónuveirusmit við skimun á landamærum síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×