Enski boltinn

Staða Gylfa var lykillinn að mati Ancelotti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi heldur boltanum í leiknum í gær. FH-ingurinn átti flottan leik.
Gylfi heldur boltanum í leiknum í gær. FH-ingurinn átti flottan leik. vísir/getty

Everton vann sinn fyrsta sigur í síðustu fimm leikjum er liðið bar sigurorð af Sheffield United á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í gær. Carlo Ancelotti, stjóri Everton, sagði stöðu Gylfa Sigurðssonar vera einn lykillinn í sigrinum.

Everton hafði gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum er liðið mætti á Bramall Lane í gær. Liðið fór þó í burtu með stigin þrjú eftir hörkuleik en Gylfi lagði upp eina mark leiksins fyrir Brasilíumanninn Richarlison.

„Mér fannst við bæta okkur mikið frá síðasta útileik. Við sýndum allt annað viðhorf og einbeitingu. Þú getur bara unnið hér ef þú ert einbeittur og klár í slaginn,“ sagði Ancelotti en Everton fékk 3-0 skell gegn Wolves í síðasta útileik.

„Varnarlega vorum við góðir því við vissum að þeir væru hættulegir. Richarlison og Walcott vörðust vel á vængjunum. Við gerðum vel og frammistaðan var góð.“

Gylfi Þór fékk loksins að spila í sinni uppáhalds stöðu, sjálfri tíunni, eða stöðunni á bak við framherjann Dominic Calvert-Lewin. Gylfi lagði svo upp eina mark leiksins.

„Lykilstaðan var staða Gylfa Sigurðssonar. Þeir náðu að koma í veg fyrir sendingarnar í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik höfðu þeir minni orku og við fundum fleiri leiðir til þess koma boltanum á milli línana.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×