Innlent

Mun fleiri ferða­menn hafa komið hingað til lands en búist var við

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Mun fleiri ferðamenn hafa komið til landsins það sem af er ári en búist var við.
Mun fleiri ferðamenn hafa komið til landsins það sem af er ári en búist var við. Vísir/Vilhelm

Um fjögur hundruð þúsund ferðamenn hafa komið til landsins á þessu ári og þar af mun fleiri á síðustu vikum en búist var við að sögn aðalhagfræðings Íslandsbanka. Líklegt sé að fjöldi ferðamanna á þessu ári verði um þriðjungur af því sem hann var í fyrra.

Greiningardeild Íslandsbanka spáðu í maí að um sjöhundruð þúsund ferðamenn kæmu til landsins á þessu ári. Aðalhagfræðingur bankans segir að menn hafi verið nokkuð svartsýnir á að spáin rættist fyrstu daganna í júní.

„Það munar heldur betur um þann fjölda sem er að bætast við núna þannig að ég held að þessi spá okkar gæti orðið nokkuð nærri lagi og við fáum þá jafnvel upp undir þriðjung af þeim ferðamannafjölda sem var í fyrra,“ segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Er þetta að gerast jafnvel hraðar en leit út fyrir í byrjun sumarsins?

„Já, ég held það megi segja það. Því eru væntanlega skorður settar hversu hraður vöxturinn getur orðið áfram eftir þennan kipp sem er að koma núna.“

Í síðustu viku var tilkynnt að íbúar fjögurra landa þyrftu ekki að fara í skimun á landamærum. Áður hafði komið fram að fólk frá Grænlandi og Færeyjum slyppu við ferlið. Jón segir þetta góðar fréttir.

„Eins er það til marks um að það eru fleiri lönd þar sem er kominn meiri ferðahugur, þar sem fólk er orðið öruggara með sig. Það dreifir líka áhættunni að jafna út strauminn af því að það er misjafnt á hvaða tíma árs ferðamenn frá hverju landi koma,“ segir Jón Bjarki.

Ferðamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Asíu hafa verið langfjölmennastir hér á landi og segir Jón að þegar þeir fara að streyma aftur til landsins verði algjör viðsnúningur í ferðamennsku á Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×