Dómari hefur heimilað afhendingu gagna í máli bresku athafnakonunnar Ghislaine Maxwell sem bíður þess að mál hennar fari fyrir dóm en hún er sökuð um að hafa aðstoðað barnaníðinginn Jeffrey Epstein við mansal.
Loretta Preska, umdæmisdómari í New York, heimilaði afhendingu meira en 80 málsskjala úr málssókn sem höfðuð var gegn Maxwell árið 2015.
Áður hafi Maxwell reynt að koma í veg fyrir að saksóknarar, Alríkislögregluþjónar og lögmenn í málinu myndu tala um málið utan dómsalsins. Annar dómari dæmdi þær tilraunir óréttmætar. Maxwell bíður nú eftir réttarhöldunum í alríkisfangelsi í Brooklyn en málið verður tekið fyrir dóm í júlí 2021.
Maxwell var handtekin á landareign sinni þann 2. júlí og er ákærð fyrir að hafa lokkað unglingsstúlkur - allt að niður í 14 ára gamlar – sem Epstein og vinir hans kynferðislega misnotuðu. Þetta á að hafa gengið á seinni hluta tíunda áratugarins. Þá er hún einnig sökuð um ljúgvitni fyrir að hafa neitað að hafa vitað af ofbeldinu sem Epstein beitti.
Í skjölunum sem verða líklega birt í næstu viku eru meðal annars gögn um flugáætlanir einkaþota Epstein, vitnisburð Maxwell úr máli frá árinu 2016 þar sem hún var spurð út í hvernig kynlífi hún lifði að sögn lögmanna hennar, og lögregluskýrslur frá Palm Beach í Flórída þar sem Epstein bjó.