Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ingi Tryggvason lögmaður sé hæfastur umsækjenda. Alls sóttu fimmtán um tvö embætti við dóminn, en tveir drógu umsóknir sínar til baka.
Ingi er 58 ára og hefur rekið eigin lögmannsstofu og fasteignasölu frá árinu 1999. Hann hefur verið formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi frá árinu 2017 og hefur setið í úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána frá 2014. Þá var hann settur héraðsdómari við Héraðsdóms Vesturlands þegar hann starfaði sem fulltrúi þar.
Ingi var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Mýrarsýslu í tíu ár og var jafn lengi í stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Þá telur dómefnd að Halldóra Þorsteinsdóttir lektor sé næst hæfust til þess að hljóta embættið. Halldóra er 36 ára og hefur starfað sem lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2017 ásamt því að sinna kennslu við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Þá hefur hún reynslu af lögmannsstörfum og starfaði einnig sem aðstoðarmaður í Hæstarétti.
Samhliða núverandi störfum stundar Halldóra meistaranám í mannréttindum við Háskólann í Lundúnum og hefur ritað alls tólf fræðigreinar um lögfræði, þar af tíu ritrýndar.
Eftirtalin sóttu um embættin
Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingurAuður Björg Jónsdóttir lögmaður
Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður
Halldóra Þorsteinsdóttir lektor
Herdís Hallmarsdóttir lögmaður
Ingi Tryggvason lögmaður
Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður
Ólafur Egill Jónsson aðstoðarmaður héraðsdómara
Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir lektor
Sigurður Jónsson lögmaður
Sólveig Ingadóttir aðstoðarmaður héraðsdómara
Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari
Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður
Höskuldur Þórhallsson lögmaður og Guðfinnur Stefánsson aðstoðarmaður héraðsdómara drógu umsóknir sínar til baka.