Innlent

Vildi ekki yfirgefa lögreglustöðina eftir næturgistingu

Andri Eysteinsson skrifar
Maðurinn hafi dvalið í fangaklefa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Maðurinn hafi dvalið í fangaklefa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Vísir/Hanna

Um fimmtíu mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag og segir í dagbók lögreglunnar að málin hafi verið fjölbreytt.

Dagurinn á lögreglustöðinni á Hverfisgötu hófst með því að lögregla þurfti að hafa afskipti af manni sem hafði þá verið nýlega sleppt úr fangaklefa eftir að hafa dvalið þar vegna ölvunaraksturs. Vildi maðurinn ekki fara í burtu eftir að honum var sleppt og hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu sem sögðu honum að fara á brott.

Vann maðurinn sér inn áframhaldandi dvöl á lögreglustöðinni vegna framgöngu sinnar.

Þá var maður handtekinn í morgunsárið grunaður um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi. Lögregla þurfti einnig að hafa afskipti af tveimur mönnum í Breiðholti vegna tilkynningar um líkamsárás.

Þá kom einnig til þess að kona sem sat að snæðingi í verslunarmiðstöð í Kópavogi gat ekki borgað fyrir reikninginn að máltíð lokinni og var því kallað til lögreglu.

Einnig var tilkynnt um stuld á bifreið í miðbænum í morgun. Ökumaður hvítrar Renault sendibifreiðar leit af henni um stundarsakir og var hún þá tekin ófrjálsri hendi. Bíllinn hefur ekki fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×