Erlent

Hafna því að flótta­maðurinn sé smitaður

Sylvía Hall skrifar
Frá Pyongyang í Norður-Kóreu. Sé maðurinn smitaður er það fyrsta staðfesta tilfelli Covid-19 í Norður-Kóreu.
Frá Pyongyang í Norður-Kóreu. Sé maðurinn smitaður er það fyrsta staðfesta tilfelli Covid-19 í Norður-Kóreu. Vísir/Getty

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafna því að maður sem flúði til landsins og sneri aftur til Norður-Kóreu fyrir rúmri viku síðan sé smitaður af kórónuveirunni. Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lýsti yfir neyðarástandi vegna grunsins um að maðurinn væri smitaður, sem væri fyrsta staðfesta tilfelli Covid-19 í landinu.

Hinn meinti smitberi er sagður hafa flúið Norður-Kóreu fyrir um þremur árum og snúið aftur þann 19. júlí. Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að maðurinn sé grunaður um að hafa skriðið í gegnum frárennslisrör og synt um það bil 1,6 kílómetra til þess að koma sér yfir landamærin, en hann er sagður hafa farið svipaða leið þegar hann flúði fyrst fá norðrinu.

Í gær var greint frá frá því að maðurinn væri grunaður um nauðgun í Suður-Kóreu. Yonhap fréttaveitan sagði yfirvöld hafa leitað 24 ára gamals manns frá Norður-Kóreu sem hafði nauðgað konu í síðasta mánuði sem flúði einnig frá landinu.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýna að maðurinn synti yfir frá eyjunni Ganghwa og skreið svo undir gaddavír í frárennslisröri sem leiðir til Gulahafs. Þaðan synti hann yfir til Norður-Kóreu til borgarinnar Kaesong þar sem útgöngubanni hefur nú verið komið á vegna gruns um smit.

Hingað til hafa norður-kóresk stjórnvöld haldið því fram að engin kórónuveirusmit hafi greinst í landinu. Því er mögulega um að ræða fyrsta opinbera tilfelli veirunnar í landinu lokaða.

„Neyðaratvik varð í Kaesong þegar að flóttamaður, sem flúði til suðurs, sneri aftur með ólögmætum hætti og virðist smitaður af veirunni skæðu,“ sagði í fréttaflutningi ríkismiðilsins KCNA.


Tengdar fréttir

Grunur um kórónuveirusmit í Norður-Kóreu

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, kallaði til neyðarfundar eftir að einstaklingur sem grunaður erum að vera smitaður af veirunni laumaðist yfir landamæri Norður- og Suður-Kóreu fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×