Innlent

Eyjamenn gagnrýna meintan flutning Ólafs Helga til Eyja

Sylvía Hall skrifar
Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi segir óeðlilegt að færa Ólaf Helga til Vestmannaeyja ef niðurstaðan er sú að hann er óhæfur til að gegna embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi segir óeðlilegt að færa Ólaf Helga til Vestmannaeyja ef niðurstaðan er sú að hann er óhæfur til að gegna embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Vísir

„Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að sé lögreglustjóri óhæfur til að sinna sínu embætti á Suðurnesjum er hann jafn óhæfur til að sinna því í Vestmannaeyjum,“ segir Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, í færslu á Facebook.

Þar deilir hún frétt þar sem greint er frá því að dómsmálaráðherra hafi tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að hann verði fluttur til Vestmannaeyja. Að sögn Hildar væri slíkur flutningur óásættanlegur og gjaldfelling á embættinu í Vestmannaeyjum.

Mikið hefur gustað um embætti lögreglunnar á Suðurnesjum undanfarna daga. Vísir greindi frá því í síðustu viku að fjórir af sjö æðstu yfirmönnum embættisins ynnu gegn honum og héldu upplýsingum frá honum.

Þá hefðu starfsmenn kvartað undan framkomu Ólafs Helga en ekki hafi verið tekið á þeim málum heldur hafi hann hótað starfsmönnunum brottrekstri. Hópur yfirmanna hafi jafnframt kvartað undan honum til dómsmálaráðuneytisins.

Hildur segir eðlilegast ef staða lögreglustjórans í Vestmannaeyjum yrði auglýst. Þá gæti Ólafur Helgi sótt um eins og hver annar, en það væri óeðlilegt að færa hann þangað og þá sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á Suðurnesjum.

„Að veita einhverjum tækifæri umfram annan og hvað þá einhverjum sem nota bene er hringamiðjan í þessu erfiða máli á Suðurnesjum væri óásættanlegt,“ skrifar Hildur.

Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri Handknattleikssambands Íslands, tjáir sig einnig um málið á Twitter síðu sinni. Þar hvetur hann Víði Reynisson yfirlögregluþjón til þess að sækja um og beinir því næst orðum sínum að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og segir Vestmannaeyjar ekki „ruslakistu fyrir óhæfa embættismenn“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×