Körfubolti

Stólarnir komnir með Kana | Hópurinn klár fyrir veturinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nick Tomsick (fyrir miðju) mun leika með Tindastól á næstu leiktíð.
Nick Tomsick (fyrir miðju) mun leika með Tindastól á næstu leiktíð. Vísir/Bára

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ekki setið auðum höndum undanfarna daga. Í gær skrifaði Bandaríkjamaðurinn Shawn Glover undir samning við Tindastól. Samkvæmt staðarmiðlinum Feyki er leikmannahópur Stólanna klár fyrir komandi tímabil í Domino´s deild karla.

Hinn þrítugi Glover hefur spilað á Spáni, Danmörku, Ísrael og Úrúgvæ á ferli sínum. Hann er tveir metrar á hæð og spilar stöðu kraftframherja. Israel Martin – fyrrum þjálfari Stólanna – var þjálfari Glover hjá Bakken Bears í Danmörku á sínum tíma.

Fyrr í vikunni sömdu Stólarnir við Antanas Udras en hann kemur frá Litháen. Eru leikmennirnir væntanlegir til landsins í lok ágústmánaðar.

Leikmannahópur Tindastóls er því fullmannaður en Nick Tomsick færði sig um set er síðasta tímabili lauk og mun hann leika á Sauðárkróki næsta vetur. Þar með er ljóst að Stólarnir ætla að gera enn eina atlöguna að Íslandsmeistaratitlinum.

Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Tindastóls.Vísir/Bára

Tindastóll lenti í þriðja sæti í Domino´s deildinni með 28 stig, líkt og KR. Fyrir ofan voru Keflavík með 32 stig og Stjarnan með 34. Ákveðið var að engin úrslitakeppni yrði sökum kórónufaraldursins og því varð enginn Íslandsmeistari.

Tindastóll fær ÍR í heimsókn í Síkið þann 1. október næstkomandi þegar Domino´s deild karla fer aftur af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×