Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Stjarnan 1-2 | Bikarmeistararnir úr leik Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar 30. júlí 2020 22:15 Hilmar Árni skaut Stjörnunni áfram í bikarnum. Vísir/Bára Bikarmeistarar Víkings eru úr leik í Mjólkurbikarnum þetta árið eftir súrt 2-1 tap á heimavelli gegn Stjörnunni. Leikurinn byrjaði hreint ótrúlega. Halldór Smári Sigurðsson snéri aftur í byrjunarlið Víkinga en hann flaug á hausinn strax eftir 20 sekúndur og Guðjón Pétur Lýðsson – sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði Stjörnunnar eftir að hafa komið frá Breiðablik – skaut rétt framhjá. Aðeins nokkrum sekúndum síðar voru heimamenn að spila út úr vörninni þegar Sölvi Geir Ottesen rennur og Emil Atlason sleppur einn í gegn. Emil rennir knettinum undir Ingvar og í netið. Staðan orðin 1-0 og aðeins mínúta á klukkunni. Víkingar – sem voru í 3-5-2 leikkerfi í dag – fundu engan veginn taktinn í fyrri hálfleik og var staðan enn 1-0 Stjörnunni í vil þegar fyrri hálfleik lauk. Arnar Gunnlaugsson gerði skiptingu í hálfleik og breytti í hefðbundið 4-4-2 leikkerfi með tígulmiðju. Það virkaði og Víkingar voru mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik en Hilmar Árni Halldórsson skoraði samt eftir einkar vel útfærða skyndisókn á 54. mínútu. Eftir það tóku Víkingar öll völd á vellinum. Þeir einfaldlega áttu leikinn með húð og hári. Skömmu síðar skoraði Nikolaj Andreas Hansen með bakfallsspyrnu eftir hornspyrnu. Hansen hélt svo að hann hefði jafnað metin á 69. mínútu en markið var flaggað af vegna rangstæðu. Erfitt var að skera úr um hvort Daninn hafi verið rangstæður eður ei. Hansen var svo áfram allt í öllu en hann fékk sitt annað gula spjald á 87. mínútu fyrir litlar sakir. Hann ætlaði að skýla boltanum en fór aðeins of hátt með hendina í Þorstein Má Ragnarsson. Annað gult niðurstaðan og eftir það fjaraði leikurinn út. Lokatölur 2-1 Stjörnunni í vil og liðið komið í 8-liða úrslit. Af hverju vann Stjarnan? Það er erfitt að segja. Seigla, þrautseigja, vilji og metnaður til að verjast skilaði þeim þessum sigri. Líkt og leikurinn á dögunum átti þessi einnig að fara jafntefli, allavega. En það er ekki spurt að því. Hverjir stóðu upp úr? Miðverðir Stjörnunnar stóðu vaktina frábærlega. Sömu sögu er að segja af Alexi Þór Haukssyni. Þeir héldu út þrátt fyrir mikla pressu heimamanna. Nikolaj Hansen var frábær í í liði Víkinga þrátt fyrir að fá tvö gul. Ásamt því að skora markið var hann allt í öllu í sóknarleik liðsins. Þá var Helgi Guðjónsson óheppinn að skora ekki eftir að hafa komið inn af bekknum. Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmark leiksins en hefur þó átt betri leiki. Það er samt erfitt að kvarta yfir manni sem kemur liðinu áfram. Hvað gekk illa? Óttar Magnús Karlsson hefur átt betri leiki en í kvöld. Sóknarleikur Stjörnunnar var ekki upp á marga fiska en liðið skoraði tvö mörk og vann leikinn. Víkingum gekk illa – þannig séð – að brjóta niður varnarmúr gestanna. Hvað gerist næst? Stjarnan kemst áfram í 8-liða úrslit á meðan bikarmeistarar Víkings eru úr leik. Rúnar Páll var hinn sáttasti að leik loknum.vísir/bára Rúnar Páll: Þetta lið kann að spila vörn og leiðist það ekkert „Bara vel, þetta var flottur sigur og frábært að komast áfram í bikarnum,“ sagði Rúnar Páll himinlifandi að leik loknum. „Mér fannst við virkilega góðir í þessum leik og góður andi í okkur. Við vildum komast áfram í þessari keppni og ég er hrikalega ánægður með frammistöðu allra leikmanna okkar í kvöld,“ sagði Rúnar jafnframt. „Mér fannst við eiga fínan fyrri hálfleik, héldum boltanum og áttum ágætis sóknir. Víkingar eru náttúrulega mjög flinkir og halda mikið í boltann. Við vissum það og að við yrðum aðeins meira í vörn. Við spiluðum vörnina mjög vel, þetta lið kann að spila vörn og leiðist það ekkert,“ sagði Rúnar aðspurður hvort hann og Óli Jó hefðu breytt uppleggi liðsins frá 1-1 jafnteflinu gegn Víkingum á dögunum. „Bara fókusera á réttu hlutina, þetta er eitthvað sem við getum ekki haft áhrif á. Þannig að leikmennirnir voru gríðarlega einbeittir á leikinn en það er leiðinlegt að hafa ekki áhorfendur því við eigum frábæra áhorfendur í Silfurskeiðinni og okkar fólki. En þetta gekk ágætlega, frábært veður og geggjaður völlur svo þetta var allt hið besta,“ sagði Rúnar um aðdraganda leiksins en það voru engir áhorfendur á leikjum kvöldsins eftir tilmæli Almannavarna þess efnis. „Nei nei, við fáum einhvern og ætlum að vinna þá,“ sagði Rúnar að lokum aðspurður hvort Stjarnan ætti drauma mótherja í næstu umferð. Hilmar Árni þandi netmöskvana í kvöld.Vísir/Daníel Hilmar Árni: Furðulegt að vera ekki með áhorfendur „Við erum ánægðir með að vera komnir áfram. Þeir eru með gott lið og það var mikið hlaupið svo það er ánægjulegt að vera komnir áfram,“ sagði hetja Stjörnumanna hinn rólegasti að leik loknum. „Það er mjög gaman. Furðulegt að vera ekki með áhorfendur – eða það voru nú nokkrir þarna líflegir – en mjög gaman. Þetta var góður fótboltaleikur,“ sagði Hilmar um leik kvöldsins en það var hart barist og hátt tempó. Það eina sem vantaði voru áhorfendurnir. „Skrítið í undirbúningnum en svo þegar flautað er á þá gleymir maður því,“ sagði Hilmar um áhorfendaleysið. „Er ekki klassískt að segja að maður vilji heimaleik,“ sagði Hilmar að lokum varðandi draumamótherja í 8-liða úrslitum. Arnar Gunnlaugsson fór í gegnum allan tilfinningaskalann í viðtali eftir leik.vísir/bára Arnar: Dóum ekki eins og einhverjir aumingjar Aðspurður hvernig sér liði eftir leik þó hló Arnar einfaldlega áður en hann svaraði ítarlega. „Þetta var bara - ég veit það ekki - þetta var bara hræðileg tilfinning. Fyrst vill ég óska Stjörnunni til hamingju. Mér fannst þetta æðislegur leikur. Engir áhorfendur og allt það en þetta var frábær fótboltaleikur að því leyti að bæði lið voru „all in.“ „Við gáfum þeim bara fyrsta markið. King Sölvi (Geir) maður, ég hef aldrei séð þetta áður en ef einhver leikmaður fær fyrirgefningu hjá okkur er það hann. Fyrri hálfleikur jafn, bæði lið sterk, áttu spilkafla og færi. Seinni hálfleikur var bara eign okkar frá A til Ö og þetta var hrikalega súrt. Fyrst við eigum að falla út þá vill ég falla út eftir svona frammistöðu. Ég fer heim og vek tveggja ára dóttir mína og knúsa hana því pabbi á knús skilið,“ sagði Arnar um leik kvöldsins. Sölvi Geir Ottesen rann illa í fyrra marki Víkings. Skömmu áður hafði Halldór Smári Sigurðsson einnig runnið – allt á fyrstu mínútu leiksins. Arnar átti engar útskýringar á því. „Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta. Við bleytum völlinn fyrir allar æfingar og leiki. Þetta er bara eitthvað sem gerist. Þetta er það sem gerir fótboltann skemmtilegan, þetta óvænta. Leikmenn sem þú átt ekki von á að geri mistök gera mistök.“ Víkingar hófu leikinn í 5-3-2 eða 3-5-2 leikkerfi eftir að hafa leikið 4-4-2 með tígulmiðju í 1-1 jafntefli liðanna á dögunum. Þeir fóru yfir í sitt uppáhalds leikkerfi í hálfleik. „Við breyttum um taktík í hálfleik og herjuðum á þá en það dugði ekki til að þessu sinni. Stjarnan er með flott lið og stóð sig hrikalega vel en þegar tvö lið mætast er þetta bara „game of margins“ (e. leikur smáatriðanna).“ Nikolaj Andreas Hansen fékk annað gult spjald undir lok leiks fyrir litlar sakir. Arnar taldi þurfa ritskoðun á viðtalinu ef hann ætti að segja það sem hann væri að hugsa. „Kemur bíb hljóðið núna þegar ég byrja tala,“ sagði Arnar og hló. „Niko er tveir og tuttugu, prófa þú að hoppa upp og lenda á móti aðeins lægri manni. Þetta er bara ekkert rautt spjald. Leikurinn var búinn að vera harður frá upphafi og þetta var í ósamræmi við góðan leik. Þetta var dæmigerður enskur leikur þar sem dómarinn leyfði eitthvað. Hann leyfði og leyfði, svo kom gula spjaldið á okkur. Hann leyfði og leyfði, svo kom rautt. Það vantaði þetta samræmi því Þorvaldur (Árnason, dómari) stóð sig allt í lagi og fýla hvernig hann var að leyfa leiknum að ganga en þú verður að taka þá línu alla leið í 90 mínútur.“ Að lokum var Arnar spurður hvernig Víkingar myndu tækla þetta tap. „Það er þetta vanalega bara, þú sleikir sárin í 2-3 daga og núna örugglega alla helgina. Verslunarmannahelgin er ónýt bara, það var nógu mikið þunglyndi eftir fréttir dagsins með þetta Covid-rugl. Þú sleikir sárin, svo hættiru að vorkenna þér og mætir til leiks. Þetta eru atvinnumenn, þetta er ekkert flóknara en það. Meina það er nóg eftir að keppa, við féllum út með sæmd. Við dóum ekki eins og einhverjir aumingjar, við gáfum allt í þetta og það verður að taka eitthvað jákvætt frá þessu. Við reynum að spila leikinn á réttan hátt, við reynum að gera þetta almennilega svo ég er svekktur fyrir hönd strákanan því þeir reyna að spila fótbolta á réttan hátt og mér finnst liðið eiga meira skilið fyrir fótboltann sem við spilum.“ Mjólkurbikarinn Fótbolti Íslenski boltinn Víkingur Reykjavík Stjarnan
Bikarmeistarar Víkings eru úr leik í Mjólkurbikarnum þetta árið eftir súrt 2-1 tap á heimavelli gegn Stjörnunni. Leikurinn byrjaði hreint ótrúlega. Halldór Smári Sigurðsson snéri aftur í byrjunarlið Víkinga en hann flaug á hausinn strax eftir 20 sekúndur og Guðjón Pétur Lýðsson – sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði Stjörnunnar eftir að hafa komið frá Breiðablik – skaut rétt framhjá. Aðeins nokkrum sekúndum síðar voru heimamenn að spila út úr vörninni þegar Sölvi Geir Ottesen rennur og Emil Atlason sleppur einn í gegn. Emil rennir knettinum undir Ingvar og í netið. Staðan orðin 1-0 og aðeins mínúta á klukkunni. Víkingar – sem voru í 3-5-2 leikkerfi í dag – fundu engan veginn taktinn í fyrri hálfleik og var staðan enn 1-0 Stjörnunni í vil þegar fyrri hálfleik lauk. Arnar Gunnlaugsson gerði skiptingu í hálfleik og breytti í hefðbundið 4-4-2 leikkerfi með tígulmiðju. Það virkaði og Víkingar voru mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik en Hilmar Árni Halldórsson skoraði samt eftir einkar vel útfærða skyndisókn á 54. mínútu. Eftir það tóku Víkingar öll völd á vellinum. Þeir einfaldlega áttu leikinn með húð og hári. Skömmu síðar skoraði Nikolaj Andreas Hansen með bakfallsspyrnu eftir hornspyrnu. Hansen hélt svo að hann hefði jafnað metin á 69. mínútu en markið var flaggað af vegna rangstæðu. Erfitt var að skera úr um hvort Daninn hafi verið rangstæður eður ei. Hansen var svo áfram allt í öllu en hann fékk sitt annað gula spjald á 87. mínútu fyrir litlar sakir. Hann ætlaði að skýla boltanum en fór aðeins of hátt með hendina í Þorstein Má Ragnarsson. Annað gult niðurstaðan og eftir það fjaraði leikurinn út. Lokatölur 2-1 Stjörnunni í vil og liðið komið í 8-liða úrslit. Af hverju vann Stjarnan? Það er erfitt að segja. Seigla, þrautseigja, vilji og metnaður til að verjast skilaði þeim þessum sigri. Líkt og leikurinn á dögunum átti þessi einnig að fara jafntefli, allavega. En það er ekki spurt að því. Hverjir stóðu upp úr? Miðverðir Stjörnunnar stóðu vaktina frábærlega. Sömu sögu er að segja af Alexi Þór Haukssyni. Þeir héldu út þrátt fyrir mikla pressu heimamanna. Nikolaj Hansen var frábær í í liði Víkinga þrátt fyrir að fá tvö gul. Ásamt því að skora markið var hann allt í öllu í sóknarleik liðsins. Þá var Helgi Guðjónsson óheppinn að skora ekki eftir að hafa komið inn af bekknum. Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmark leiksins en hefur þó átt betri leiki. Það er samt erfitt að kvarta yfir manni sem kemur liðinu áfram. Hvað gekk illa? Óttar Magnús Karlsson hefur átt betri leiki en í kvöld. Sóknarleikur Stjörnunnar var ekki upp á marga fiska en liðið skoraði tvö mörk og vann leikinn. Víkingum gekk illa – þannig séð – að brjóta niður varnarmúr gestanna. Hvað gerist næst? Stjarnan kemst áfram í 8-liða úrslit á meðan bikarmeistarar Víkings eru úr leik. Rúnar Páll var hinn sáttasti að leik loknum.vísir/bára Rúnar Páll: Þetta lið kann að spila vörn og leiðist það ekkert „Bara vel, þetta var flottur sigur og frábært að komast áfram í bikarnum,“ sagði Rúnar Páll himinlifandi að leik loknum. „Mér fannst við virkilega góðir í þessum leik og góður andi í okkur. Við vildum komast áfram í þessari keppni og ég er hrikalega ánægður með frammistöðu allra leikmanna okkar í kvöld,“ sagði Rúnar jafnframt. „Mér fannst við eiga fínan fyrri hálfleik, héldum boltanum og áttum ágætis sóknir. Víkingar eru náttúrulega mjög flinkir og halda mikið í boltann. Við vissum það og að við yrðum aðeins meira í vörn. Við spiluðum vörnina mjög vel, þetta lið kann að spila vörn og leiðist það ekkert,“ sagði Rúnar aðspurður hvort hann og Óli Jó hefðu breytt uppleggi liðsins frá 1-1 jafnteflinu gegn Víkingum á dögunum. „Bara fókusera á réttu hlutina, þetta er eitthvað sem við getum ekki haft áhrif á. Þannig að leikmennirnir voru gríðarlega einbeittir á leikinn en það er leiðinlegt að hafa ekki áhorfendur því við eigum frábæra áhorfendur í Silfurskeiðinni og okkar fólki. En þetta gekk ágætlega, frábært veður og geggjaður völlur svo þetta var allt hið besta,“ sagði Rúnar um aðdraganda leiksins en það voru engir áhorfendur á leikjum kvöldsins eftir tilmæli Almannavarna þess efnis. „Nei nei, við fáum einhvern og ætlum að vinna þá,“ sagði Rúnar að lokum aðspurður hvort Stjarnan ætti drauma mótherja í næstu umferð. Hilmar Árni þandi netmöskvana í kvöld.Vísir/Daníel Hilmar Árni: Furðulegt að vera ekki með áhorfendur „Við erum ánægðir með að vera komnir áfram. Þeir eru með gott lið og það var mikið hlaupið svo það er ánægjulegt að vera komnir áfram,“ sagði hetja Stjörnumanna hinn rólegasti að leik loknum. „Það er mjög gaman. Furðulegt að vera ekki með áhorfendur – eða það voru nú nokkrir þarna líflegir – en mjög gaman. Þetta var góður fótboltaleikur,“ sagði Hilmar um leik kvöldsins en það var hart barist og hátt tempó. Það eina sem vantaði voru áhorfendurnir. „Skrítið í undirbúningnum en svo þegar flautað er á þá gleymir maður því,“ sagði Hilmar um áhorfendaleysið. „Er ekki klassískt að segja að maður vilji heimaleik,“ sagði Hilmar að lokum varðandi draumamótherja í 8-liða úrslitum. Arnar Gunnlaugsson fór í gegnum allan tilfinningaskalann í viðtali eftir leik.vísir/bára Arnar: Dóum ekki eins og einhverjir aumingjar Aðspurður hvernig sér liði eftir leik þó hló Arnar einfaldlega áður en hann svaraði ítarlega. „Þetta var bara - ég veit það ekki - þetta var bara hræðileg tilfinning. Fyrst vill ég óska Stjörnunni til hamingju. Mér fannst þetta æðislegur leikur. Engir áhorfendur og allt það en þetta var frábær fótboltaleikur að því leyti að bæði lið voru „all in.“ „Við gáfum þeim bara fyrsta markið. King Sölvi (Geir) maður, ég hef aldrei séð þetta áður en ef einhver leikmaður fær fyrirgefningu hjá okkur er það hann. Fyrri hálfleikur jafn, bæði lið sterk, áttu spilkafla og færi. Seinni hálfleikur var bara eign okkar frá A til Ö og þetta var hrikalega súrt. Fyrst við eigum að falla út þá vill ég falla út eftir svona frammistöðu. Ég fer heim og vek tveggja ára dóttir mína og knúsa hana því pabbi á knús skilið,“ sagði Arnar um leik kvöldsins. Sölvi Geir Ottesen rann illa í fyrra marki Víkings. Skömmu áður hafði Halldór Smári Sigurðsson einnig runnið – allt á fyrstu mínútu leiksins. Arnar átti engar útskýringar á því. „Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta. Við bleytum völlinn fyrir allar æfingar og leiki. Þetta er bara eitthvað sem gerist. Þetta er það sem gerir fótboltann skemmtilegan, þetta óvænta. Leikmenn sem þú átt ekki von á að geri mistök gera mistök.“ Víkingar hófu leikinn í 5-3-2 eða 3-5-2 leikkerfi eftir að hafa leikið 4-4-2 með tígulmiðju í 1-1 jafntefli liðanna á dögunum. Þeir fóru yfir í sitt uppáhalds leikkerfi í hálfleik. „Við breyttum um taktík í hálfleik og herjuðum á þá en það dugði ekki til að þessu sinni. Stjarnan er með flott lið og stóð sig hrikalega vel en þegar tvö lið mætast er þetta bara „game of margins“ (e. leikur smáatriðanna).“ Nikolaj Andreas Hansen fékk annað gult spjald undir lok leiks fyrir litlar sakir. Arnar taldi þurfa ritskoðun á viðtalinu ef hann ætti að segja það sem hann væri að hugsa. „Kemur bíb hljóðið núna þegar ég byrja tala,“ sagði Arnar og hló. „Niko er tveir og tuttugu, prófa þú að hoppa upp og lenda á móti aðeins lægri manni. Þetta er bara ekkert rautt spjald. Leikurinn var búinn að vera harður frá upphafi og þetta var í ósamræmi við góðan leik. Þetta var dæmigerður enskur leikur þar sem dómarinn leyfði eitthvað. Hann leyfði og leyfði, svo kom gula spjaldið á okkur. Hann leyfði og leyfði, svo kom rautt. Það vantaði þetta samræmi því Þorvaldur (Árnason, dómari) stóð sig allt í lagi og fýla hvernig hann var að leyfa leiknum að ganga en þú verður að taka þá línu alla leið í 90 mínútur.“ Að lokum var Arnar spurður hvernig Víkingar myndu tækla þetta tap. „Það er þetta vanalega bara, þú sleikir sárin í 2-3 daga og núna örugglega alla helgina. Verslunarmannahelgin er ónýt bara, það var nógu mikið þunglyndi eftir fréttir dagsins með þetta Covid-rugl. Þú sleikir sárin, svo hættiru að vorkenna þér og mætir til leiks. Þetta eru atvinnumenn, þetta er ekkert flóknara en það. Meina það er nóg eftir að keppa, við féllum út með sæmd. Við dóum ekki eins og einhverjir aumingjar, við gáfum allt í þetta og það verður að taka eitthvað jákvætt frá þessu. Við reynum að spila leikinn á réttan hátt, við reynum að gera þetta almennilega svo ég er svekktur fyrir hönd strákanan því þeir reyna að spila fótbolta á réttan hátt og mér finnst liðið eiga meira skilið fyrir fótboltann sem við spilum.“