Íslenski boltinn

Brynjar Björn vill fá 2-3 leikmenn í ágústglugganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson þarf að finna leið til að fylla skarðið sem Birkir Valur Jónsson skilur eftir sig hjá HK.
Brynjar Björn Gunnarsson þarf að finna leið til að fylla skarðið sem Birkir Valur Jónsson skilur eftir sig hjá HK. vísir/bára

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, vonast til að geta styrkt liðið með tveimur til þremur leikmönnum í félagaskiptaglugganum sem verður opnaður 5. ágúst.

HK lánaði Birki Val Jónsson til Spartak Trnava til Slóvakíu fyrr í þessari viku. Lánssamningurinn er til sex mánaða og að honum loknum á Spartak Trnava forkaupsrétt á Birki sem hefur leikið nær alla leiki í stöðu hægri bakvarðar hjá HK undanfarin ár.

„Við ætlum að reyna að bæta við okkur tveimur til þremur mönnum. Það er mjög líklegt að einn þeirra verði í þessa stöðu [hægri bakvörð],“ sagði Brynjar í samtali við Vísi í dag.

Valgeir Valgeirsson lék sem hægri bakvörður í 6-2 sigri HK á Aftureldingu í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær. Brynjar Björn segir að HK-ingar geti alltaf gripið til þess ráðs.

„Við getum sett Valla aftar. Hann hefur spilað þar fyrir okkur áður og líka með yngri landsliðunum.“

Brynjar segir að enn sem komið er sé ekki mikið að frétta af félagaskiptum hjá HK.

„Það er voða lítið sem hægt er að tala um. Það er eitthvað í gangi hér heima og aðeins erlendis. Þetta á eftir að koma í ljós. Þetta tekur sinn tíma og það er ekkert í hendi,“ sagði Brynjar.

Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, fór af velli í uppbótartíma gegn Aftureldingu í gær. Hann er nýkominn aftur eftir meiðslin sem hann varð fyrir gegn FH í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar 14. júní. Brynjar segir að ekkert ami að Arnari núna, skiptingin í gær hafi einungis verið gerð til öryggis.

„Þetta var ekki neitt. Hann var orðinn aðeins stífur. Þetta var bara fyrirbyggjandi aðgerð,“ sagði Brynjar.

HK er í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átta stig eftir níu leiki.


Tengdar fréttir

Spartak Trnava staðfestir komu Birkis

Spartak Trnava hefur staðfest félagaskipti hægri bakvarðarins Birkis Vals Jónssonar sem gengur til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×